31.03.1922
Neðri deild: 37. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 557 í B-deild Alþingistíðinda. (558)

15. mál, útflutningsgjald

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg þykist þurfa að lýsa afstöðu minni til þessa frv. með fáum orðum. Jeg er ekki meðmæltur útflutningsgjaldi, nema, eins og jeg lýsti á síðasta þingi, að gjaldið væri hundraðsgjald af því, sem varan seldist umfram framleiðslukostnað. Og þótt þetta gjald sje ekki hátt, þá brýtur það meginregluna. En svo eru aðrar ástæður, sem eru svo ríkar, að þær neyða mig til að vera með frv. nú. Það er fyrst og fremst tekjuhallinn á fjárlögunum, sem veldur, svo einnig af því að jeg tel nú einmitt ýmsa liði í tekjuáætluninni of háa, t. d. bæði vörutollinn og kaffi- og sykurtollinn, svo að jeg get búist við meiri halla en frv. sýnir.

Hv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) var að vitna í það, að nærri 900000 kr. sjeu áætlaðar til afborgana af lánum, og væri það því eignaraukning, en eigi eyðsla. Hjer er þó það við að athuga, að talsvert af þessu er þegar tapað fje, sem eigi má telja eignaauka, t. d. það, sem borgað er af skipaláninu. (M. G.: Það eru borgaðar 300 þús. kr.). Og það er tapað vegna verðfalls skipanna. Einnig verður þess að gæta, sem hv. 1. þm. Skagf. (M. G.) benti á, að eitthvað verður að gera fyrir fjáraukalögum og ýmsu því, sem ekki er í fjárlögum, en greiða verður þó.

Af öllu þessu hefi jeg neyðst til að verða með frv.