01.04.1922
Neðri deild: 38. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 564 í B-deild Alþingistíðinda. (563)

15. mál, útflutningsgjald

Magnús Guðmundsson:

Jeg stend upp til að svara því, sem háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) hjelt fram, að of ríflegt væri að áætla 700 þús. krónur til þess að koma á móti áætluðum útgjöldum. Jeg get ekki fallist á, að þetta sje rjett hjá háttv. þm. Undir 23. gr. fjárlaganna heyra ótal margir útgjaldaliðir, sem hvergi eru áætlaðir, og sumir allháir. Mætti þar meðal annars benda á útgjöld til Flóaáveitunnar, sem nemur miklu fje, en er hvergi áætlað.

Ennfremur sagði þessi sami háttv. þm. (Jak. M.), að jeg væri bundinn við það loforð mitt að falla frá þessu frv., ef þingið reyndist verulega sparsamt. Frá því loforði tel jeg mig nú fyllilega leystan, því þingið hefir alls ekki sýnt svo mikinn sparnað í meðferð fjárlaganna, og síst skilað þeim í betra ástandi en þau voru, er þau komu frá stjórninni. Er það til marks, að úr frv. hafa verið feldir útgjaldaliðir, sem ekki máttu falla, t. d. símarnir, og í staðinn hafa komið inn verri liðir og óþarfari.