01.04.1922
Neðri deild: 38. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 566 í B-deild Alþingistíðinda. (564)

15. mál, útflutningsgjald

Jakob Möller:

Jeg þarf ekki miklu að svara. Háttv. frsm. (M. K.) talaði nokkuð undarlega um þetta mál. Í öðru orðinu talaði hann um, að gjaldið væri rjettlátt og virtist vilja hafa það til frambúðar, en í hinu orðinu óskaði hann að losna sem fyrst við það. Hjer er á ferðinni tvískinnungur sem menn verða að vera vel á verði gegn, því að það mun vera meining sumra manna, að gjaldið haldist til frambúðar. En þá tel jeg að löggjöfin bregðist beinlínis gefnu loforði, því að beinu skattarnir hafa verið hækkaðir með því vilyrði, að hætt væri við útflutningsgjald.

Háttv. 1. þm. Skagf. (M. G.) þarf jeg heldur ekki miklu að svara. Hann er altaf að reyna að smeygja sjer undan því fyrirheiti, sem hann gaf við 1. umr. fjárlaganna, að falla frá þessu frv., ef þingið færi sparlega með fjárlögin. Það hefir þingið gert; fjárlagafrv. hefir verið skilað hjeðan úr deildinni með minni tekjuhalla en var í stj.frv., og jeg fullyrði, að háttv. 1. þm. Skagf. hefir aldrei gert sjer betri vonir um það.

Þá tók sami þm. fram, að safnast mundu mikil gjöld á 23. gr., og skal jeg játa, að svo getur farið, en stjórn og þing geta haft það nokkuð í hendi sjer. Menn mega heldur ekki láta blekkjast af því, hversu hár þessi útgjaldaliður hefir verið á síðustu árum, því að á þann lið hafa t. d. verið færðar allar útborganir til Landsverslunarinnar, öll dýrtíðarhjálp o. m. fl. Þá koma hjer til greina brúagerðir ríkissjóðs og aðrar byggingar, sem fyrst og fremst hefir beinlínis verið ráðgert að framkvæma fyrir lánsfje, en stjórninni í annan stað í sjálfsvald sett, hve mikið hún gerir að. Þá þykir mjer ekki líklegt að á árinu 1923 muni þurfa að leggja til Flóaáveitunnar 200–300 þúsundir, eins og hann sagði. Eftir því ætti að verja til hennar einni miljón, eða meira, á því ári, því að ríkissjóður á ekki að leggja fram nema ¼. Mun heldur ekki gert ráð fyrir, að til hennar verði varið samtals nema 200–300 þús. á því ári, og þarf því ekki að gera ráð fyrir nema 50–60 þús. þar.

Jeg hygg, að óhætt sje að fullyrða, að það, sem þarf að koma til útgjalda á þessari grein 1923, sje mjög lítið. Það eru því allar líkur til þess, að þótt útflutningsgjaldið yrði felt niður yrðu fjárlögin tekjuhallalaus.

Jeg vil að síðustu undirstrika það með háttv. þm. Str. (M. P.), að jeg tel óforsvaranlegt að ætla landssjóði að græða eina miljón króna á sínum búskap, þegar tvísýna er á því, að nokkur annar búskapur í landinu beri sig.