03.04.1922
Neðri deild: 39. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 571 í B-deild Alþingistíðinda. (569)

15. mál, útflutningsgjald

Jakob Möller: Jeg hefi verið að hugsa um það síðan á laugardaginn, hvað það geti verið, sem valdi stefnubreytingu háttv. þdm. í þessu máli frá í fyrra. Þá marðist þetta í gegnum þessa háttv. deild á síðustu stundu með 14:12 atkv. Þá var tekjuhallinn auðsær um 2 miljónir á fjárlögum þeim, sem þingið hafði til meðferðar. Nú þykjast menn vita að tekjuhalli þeirra fjárlaga, sem nú eru á ferðinni, muni aldrei fara fram úr 1/10 hluta þeirrar upphæðar, sem hann nam í fyrra. Og þó samþykkja háttv. þdm. nú með 22:5 atkv. að framlengja útflutningsgjaldið um eitt ár enn að minsta kosti. Þannig hafa sjö háttv. þdm. sjeð sig um hönd frá því í fyrra, og þó hafa kringumstæðurnar alls ekki breyst, að minsta kosti ekki til hins verra, svo sjálfsagt sje þess vegna að samþykkja þetta gjald. Og ekki getur það heldur verið rjettlátara nú heldur en áður, enda hefir enginn þm. mælt með því vegna þess, að það væri rjettlátt gjald.

Það er heldur ekki hægt, því gjaldið er, eins og jeg og fleiri hafa tekið fram, afarósanngjarnt og ranglátt. Það nær aðeins til þeirra vara, sem út eru fluttar. Þeir landsmenn, sem selja kannske sömu afurðir hærra verði innanlands, sleppa algerlega við gjaldið, eins og t. d. þær sveitir, sem liggja nærri stórum kauptúnum.

Heilir landshlutar, eins og til dæmis hjeruðin austanfjalls og Borgfirðingar, sem selja mikið af framleiðsluvörum sínum hjer í Reykjavík, sleppa við þetta gjald, en útkjálkahjeruð, sem ekki ná í markað innanlands, verða að greiða það, og fá þó lægra verð fyrir sína vöru á erlenda markaðinum.

Þetta er ranglæti og lítt sæmandi að viðhalda því.

Annars þykist jeg vita, að háttv. þdm. muni hleypa frv. út úr deildinni, en jeg vildi leyfa mjer að mælast til þess, að þeir háttv. þm., sem snúist hafa til liðs frv. á þessu þingi, láti nú uppi, hvaða breytingar hafa orðið frá því í fyrra, er þeir greiddu atkv. á móti því.

Jeg skal til hægðarauka nefna þá háttv. þm., sem nú vilja fylgja frv. en voru eindregið á móti þessu gjaldi í fyrra.

Það er fyrst háttv. 4. þm. Reykv. (M. J.), háttv. þm. A.-Sk. (Þorl. J.), háttv. 1. þm. N.-M. (Þorst. J.), háttv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.), háttv. 1. þm. Árn. (E. E.), háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) og háttv. þm. Borgf. (P. O.), sem að vísu greiddi atkv. nú með fyrirvara.

Þessir sjö háttv. þdm. greiddu atkv. á móti frv. í fyrra, en nú vilja þeir setja það á.

Það hefir engin breyting orðið frá því í fyrra, nema að önnur stjórn er tekin við völdunum, og þykir mjer næsta undarlegt, að sumir þessara manna, að minsta kosti, láti það ráða atkv. sínu. Enda er það óverjandi og ósæmilegt að láta það stjórna atkv. sínum í skattamálum, hvaða stjórn það er, sem fer með völdin í það og það skiftið.