03.04.1922
Neðri deild: 39. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 575 í B-deild Alþingistíðinda. (573)

15. mál, útflutningsgjald

Frsm. (Magnús Kristjánsson):

Jeg hefi litlu við að bæta, því að rökfærslur háttv. þm. Str. (M. P.) eru heldur ljettvægar.

Þess vil jeg þó geta, að jeg get skjallega sannað, að menn hafa ekki búist við því, að gjaldi þessu yrði afljett nú. Liggur fyrir skjal hjer í þinginu, sem öllum þm. hefir gefist kostur á að sjá. En það er auðvitað satt, að jeg hafi aldrei leitað álits kjósenda háttv. þm., eins og virtist að hann hefði ætlast til, en alt virðist benda til þess, að þeir hafi lagt mjög að honum að koma í veg fyrir, að frv. næði fram að ganga. En það er eitt í máli þessu, sem gerir alt fjas þessa háttv. þm. tilgangslaust, og það er, að ef fjárhagurinn reynist svo góður, að fært sje að fella gjaldið niður á næsta þingi, þá er hægurinn hjá að gera það, en þá sakar ekkert, þó að það sje samþykt nú. Annars skal jeg ekki fjölyrða meira um þetta, því jeg veit, að allir skynsamir og gætnir þm. munu samþykkja gjaldið að þessu sinni.