03.04.1922
Neðri deild: 39. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 576 í B-deild Alþingistíðinda. (575)

15. mál, útflutningsgjald

Gunnar Sigurðsson:

Það er ekki nýtt, að þm. geri að gamni sínu að rangfæra orð manns hjer í deildinni. Jeg lagði aðaláhersluna á það, að skila fjárlögunum tekjuhallalausum, en gat þess um leið, að jeg væri „principielt“ á móti gjaldinu, meðal annars af því, að jeg fylgi beinu en ekki óbeinu skattakerfi sem grundvallarstefnu. Ef vel gengur fyrir útgerðinni, verður útflutningsgjaldið í raun og veru sama sem beinn skattur. Gjald þetta vil jeg einungis hafa til bráðabirgða, og er því um engin skoðanaskifti hjá mjer að ræða, þótt jeg fylgi skattinum að þessu sinni. Jeg mun verða fyrstur manna til að leggja hann niður, þegar fjárlögin þola það.