27.02.1922
Neðri deild: 10. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 582 í B-deild Alþingistíðinda. (595)

18. mál, réttur til fiskveiða í landhelgi

Fjármálaráðherra (M. G.):

Eins og kunnugt er, eru lagaákvæði um fiskiveiðar í landhelgi í mörgum brotum og falin í ýmsum lögum, þau elstu frá 1872 og svo alt til síðustu ára. Þetta er mjög óhagstætt fyrir almenning, og þótti því aðgengilegra að safna því öllu í eina heild. Þetta má og skoða sem einn lið atvinnulöggjafar vorrar og í samræmi við þál. frá 1919.

Þar við bætist, að það hefir verið nokkuð á reiki, hvernig ýmsum ákvæðum þessara laga hefir verið framfylgt, enda óþarflega lint eftir gengið á stundum. Úr öllu þessu er reynt að bæta með frv. þessu.

Allir vita, að fiskiveiðar vorar og fiskimið eru einhver dýrmætasti fjársjóður vor og að þess vegna hlýtur það að skifta miklu máli, að þessa fjársjóðs sje gætt svo, sem kostur er á. En löggjöf vor getur ekki náð lengra en til landhelginnar; yfir henni og afnotum landsins í þágu fiskiveiða getum vjer ráðið. Og frv. þetta gengur út á að tryggja oss þennan rjett fyrir oss sjálfa, að svo miklu leyti, sem alþjóðarjettur heimilar. Tilgangur frv. er að fara svo langt í þessu, sem verða má án þess að eiga á hættu rjettmætar umkvartanir annara þjóða.

Frv. er því sniðið eftir lögum þess lands, er svipaðast er voru landi, en það er Noregur. Þetta er og því náttúrlegra, sem vjer einmitt þaðan getum búist við umkvörtunum, ef nær væri gengið en heimilt er að alþjóðarjetti, eða ef efi væri á um þetta. Hinsvegar er það auðsætt, að ef vjer sníðum lög vor um þetta efni eftir lögum Norðmanna, er ekki unt fyrir þá að kvarta með rjettu.

Jeg álít, að frv. þetta gangi eins langt og heimilt er að alþjóðarjetti, og jeg vil þegar vara við að gera á því miklar breytingar, því að málið hefir verið grandgæfilega athugað.

Hið rjetta heimilisfang þessa frv. er að sjálfsögðu í sjávarútvegsnefnd, og legg jeg til, að því verði til hennar vísað að lokinni þessari umr.