27.02.1922
Neðri deild: 10. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 588 í B-deild Alþingistíðinda. (612)

19. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka

Magnús Jónsson:

Jeg vildi aðeins skjóta því til hinnar háttv. nefndar, sem taka á við frv. þessu, að ágreiningur hefir orðið um það, hvort lögin frá 1921 sjeu í gildi eða hvort þau hafi ekki samkv. 10. gr. fallið úr gildi 30. sept. síðastliðinn. Ef nú Alþingi samþykkir frv. þetta, þá viðurkennir það þar með, að lögin sjeu enn í gildi.

Jeg skal að vísu játa, að jeg er ekki lögfróður, en eftir mínu leikmannsviti að dæma, þá þarf að gefa þessu gætur.

Háttv. þdm. hafa víst orðið varir við, að útbýtt hefir verið hjer í deildinni dálitlum pjesa, sem er sjerprentun úr ritgerð um Íslandsbanka eftir Lárus H. Bjarnason hæstarjettardómara, og prentuð var í ,Tímanum‘ í vetur. Og þó að ekkert tillit sje til mín tekið eða minna skoðana í þessu máli, þá er þó full ástæða til að ganga ekki fram hjá því, sem hæstarjettardómarinn segir. Á skoðun slíks manns ætti þó að mega taka mark, og hann telur það orka mjög tvímælis, hvort lögin sjeu í gildi, og líkrar skoðunar munu fleiri lögfræðingar. Er því hjer ærin ástæða fyrir nefndina að athuga þetta vel og rækilega.

Annars get jeg ekki neitað því, að mjer finst stjórninni hafa verið mjög mislagðar hendur í þessu seðlamáli. Í fyrra kom hún með seðlafrv., en það hvarf áður en það var útrætt og önnur frv. tóku sæti þess, enda var það víst viðurkent, að það væri að sumu leyti gengið úr gildi áður en það kom fram. Átti ekki lengur við.

Maður hefði nú getað búist við, eftir alt, sem á undan er gengið, og alla þá vinnu, sem búið er að leggja í rannsókn Íslandsbanka, að stjórnin hefði nú komið með frv. um endanlegt skipulag á seðlaútgáfunni, en í staðinn fyrir það virðist stjórnin ekki hafa annað gert en skrifa 3 fyrir 2, breyta 1922 í 1923.

Jeg verð að telja það óheppilegt í mesta máta að gefa stjórninni óbundnar hendur til þess að auka seðlamergðina. Reynsla okkar í þessu efni ætti að mínu viti að vera orðin of dýr til þess, að við hefðum ekkert af henni lært. Vitanlega kemur þetta til kasta hinnar nýju stjórnar. En jeg myndi aldrei bera það traust til neinnar stjórnar, að jeg myndi þora að leyfa henni slíkt ótakmarkað.

Annars ætlaði jeg ekki að fara út í einstök atriði þessa máls, enda ekki vani við þessa umr. Þó virðist mjer það varhugavert ákvæði og einkennilegt að draga úr afgjaldi af seðlum, sem eru yfir 7 miljónir. Það er vafalaust rjett, að það er ekki gróðavegur fyrir bankann, ef hann þarf að borga alla forvöxtu sína í kostnað. En sú dýra reynsla, sem við höfum fengið af seðlamergðinni í landinu, ætti þó að kenna okkur það, að vera ekki að freista bankans um skör fram með nýjum ákvæðum og hlunnindum.