27.02.1922
Neðri deild: 10. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 589 í B-deild Alþingistíðinda. (613)

19. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka

Fjármálaráðherra (M. G.):

Jeg er samþykkur þeim háttv. þm., sem síðast talaði, að ástæðulaust sje að ræða frv. verulega á þessu stigi málsins. En jeg vil þó benda háttv. 4. þm. Reykv. (M. J.) á það, að í 10. gr. laganna frá 1921 er tilskilið, að hluthafar gangi að skilyrðum þessara laga, og það hafa þeir gert á júlífundinum í sumar, og því virðast lögmenn vera í gildi. Annars mun nefnd málsins rannsaka þetta. Vitanlega má um það deila, hvort stjórninni hafi verið mislagðar hendur í þessu máli, þó jeg geri hvorki að játa því nje neita, en hinsvegar finst mjer, að hv. 4. þm. Reykv. (M. J.) verði að játa það, að fresturinn var stuttur frá því að greitt var úr málum þessum og þar til Alþingi kom saman. Og þar sem bankarnir eru þessu frv. samþykkir, finst mjer það miklu varða. Þeir ættu þó að vera kunnugastir því, sem best má fara í þessu efni.

Jeg get ekki skilið, að hættulegt sje að fela stjórninni að sjá um seðlaaukningu, ef með þarf, þegar aukningin er þeim skilyrðum bundin, að enginn gróði fylgi fyrir þann, sem tekur hana að sjer.

Það er aðallega tvenns að gæta í þessu seðlaútgáfumáli. Í fyrsta lagi, að í umferð sje nægilega mikið af seðlum, eða sem brýn nauðsyn býður, og í öðru lagi, að seðlarnir sjeu ekki of margir.

Með frv. þessu er ætlast til, að ratað sje meðalhófið.

Það er ekki hægt að ætlast til, að nein bankastofnun greiði alla forvöxtu sína fyrir seðlaútgáfu, því eins og bent hefir verið á, er mikill kostnaður þessu samfara, bæði prentun, mannahald, og svo áhættan við að lána seðlana út. Ef stjórnin sýnir ósanngirni í samningum, er ekki að búast við sanngirni á móti. Því hefi jeg nú fengið loforð um vaxtalækkun, að jeg sýndi sanngirni í þessum samningsmálum, og vaxtalækkunin nemur margfalt meiru en það, sem á móti er látið.