20.03.1922
Neðri deild: 27. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 597 í B-deild Alþingistíðinda. (627)

19. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka

Frsm. (Magnús Kristjánsson):

Jeg hefi eiginlega mjög litlu við að bæta það, sem í nál. stendur. Það mun flestum ljóst, að hjer er aðallega um tvö atriði að ræða, og vil jeg því drepa á þau lítilsháttar.

Það er óumþráttanlegt, að vilji síðasta þings var sá, að seðlaútgáfa Íslandsbanka færi ekki fram úr 8 miljónum króna framvegis. Með lögum frá 31. maí 1921 var gert ráð fyrir, að sett yrðu lög um seðlaútgáfuna fyrir 30. júní næstk. og fleiri ákvæði bankanum viðvíkjandi. En eins og kunnugt er, hefir fráfarin stjórn ekki sjeð sjer fært að koma með frv. í þá átt, og verður þetta frv., sem hjer liggur fyrir, því að skoðast sem bráðabirgðaráðstöfun.

Nú vill nefndin marka stefnuna, og álítur heppilegast, að þingið ákveði seðlahámarkið, þannig að ríkið sjálft gefi út þá seðla, sem eru yfir 8 miljónir. Virðist þá sjálfsagt, að Landsbankinn hafi þá útgáfu með höndum, og þess vegna er brtt. á þskj. 121 fram bornar. Og vona jeg, að háttv. deild fallist á, að brtt. sjeu vel við unandi og samþykki þær.

Önnur brtt. nefndarinnar þykir líklega ekki eins miklu máli skifta, enda á hún aðeins að slá varnagla við því, að ekki verði hægt að þrátta um, hvernig eigi að reikna afgjald til ríkisins af seðlum Íslandsbanka. Því nefndin lítur svo á, að varla geti komið til mála að telja inneign Íslandsbanka við erlenda banka til málmforða bankans, eins og þó hefir átt sjer stað og numið miklu, þegar afgjaldið var reiknað.

Jeg tel ástæðulaust að fara frekar út í þetta mál nú, fyr en þá að minsta kosti að andmælum verður hreyft. Það er æðimargt, sem stendur í sambandi við þetta mál, svo sem hlutakaup ríkisins í Íslandsbanka, en jeg hygg þó ekki þurfi að minnast á það að þessu sinni, því jeg býst við, að hæstv. stjórn leggi fram álit sitt um það atriði áður en þingi er slitið.

Að svo mæltu læt jeg hjer staðar numið, en vænti að háttv. deild taki þessu frv. með brtt. nefndarinnar vel.