20.03.1922
Neðri deild: 27. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 599 í B-deild Alþingistíðinda. (629)

19. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka

Pjetur Ottesen:

Jeg gerði fyrirspurn um það til hæstv. forsrh. (J. M.), sem þá var, og verið hefir sem forsætisráðherra formaður bankaráðs Íslandsbanka, hjerna á dögunum, er mál þetta var til 1. umr., hverju það sætti, að bankaráðið hefði ekki látið Íslandsbanka lækka vexti sína, þar sem kunnugt er, að vextir í bönkum hafa lækkað að mun yfirleitt. En hann (forsrh.) kvaðst ekki vera viðbúinn að svara þeirri spurningu. Hjelt jeg þó, að bankaráðið hefði síst þurft að ganga þess dulið, að slíkri spurningu sem þessari yrði hreyft hjer á Alþingi. Síðan þetta var hafa stjórnarskifti orðið í landinu, eins og kunnugt er, og verður hinn fráfarni forsrh. því ei krafinn svars í þessu efni. En þó jeg beindi fyrirspurn minni einkum til hæstv. þáv. forsrh. (J. M.), þá á þó alt bankaráðið sök á þessari vanrækslu, en það verður að telja það vanrækslu, að hafa ekki gripið í taumana, svo mjög sem hin geysierfiðu vaxtakjör lama atvinnuvegina og sjálfsbjargarviðleitni þjóðarinnar. Og í því efni verður Alþingi auðvitað að beina skeytum sínum að þeim hluta bankaráðsins, sem kosinn er af þinginu, og að forsætisráðherra, sem er sjálfkjörinn formaður þess ráðs.

Í lögum frá 1905, um heimild til að stofna hlutafjelagsbanka á Íslandi, er, eins og mönnum er kunnugt, landinu trygður allur yfirráðarjettur yfir Íslandsbanka, þar sem það er trygt í 17. gr., að meiri hluti bankaráðsins sjeu innlendir menn og beri ábyrgð á gerðum sínum gagnvart Alþingi. Er svo ákveðið, að í bankaráðinu skuli vera 7 menn, 3 kosnir af hluthöfum, 3 kosnir af Alþingi og forsætisráðherra sjálfkjörinn formaður ráðsins. Að landinu sjeu trygð öll yfirráð bankans, kemur enn skýrar fram í reglugerð fyrir bankann frá 1903. Þar er komist svo að orði í 19. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Fulltrúaráðið hefir hina æðstu forstöðu bankans og allra mála hans á hendi.

Í öllum málefnum, öðrum en daglegum störfum bankans, gerir fulltrúaráðið ályktun fyrir hans hönd, nema þar sem vald til þess er í reglugerðinni áskilið aðalfundi. Að því er snertir hin daglegu bankastörf, er falin eru framkvæmdarstjórninni, þá hefir fulltrúaráðið eigi önnur afskifti af þeim en að gefa almenn ákvæði og segja fyrir leiðbeinandi meginreglur.

Fulltrúaráðið er fyrir hönd bankans í öllum málum gagnvart hinu opinbera og öðrum mönnum, þar sem eigi er um dagleg bankastörf að ræða, svo og gagnvart hluthöfum í bankanum.“

Af þessu er það augljóst, að bankastjórarnir eru aðeins framkvæmdarstjórar bankans, sem framkvæma hin daglegu störf hans. En fulltrúaráðið eða bankaráðið getur því og á að ráða um alla tilhögun á starfsemi bankans, svo sem það, að hvaða framkvæmdum eða starfi sjerstaklega skuli beint fjármagni bankans og í hvaða hlutfalli því skuli skift milli atvinnuveganna og hinnar ýmsu starfsemi í landinu. Það er einnig á valdi bankaráðsins að ákveða um lánskjör, hverjir skuli vera útláns- og innlánsvextir bankans á hverjum tíma. Við höfum því yfirráð bankans skýlaust í okkar höndum, og það er ekki af skorti á lagaheimildum að þetta hefir verið trassað af bankaráðinu. Enda var og full þörf að hafa slík ákvæði til þess að koma í veg fyrir, að eigendur bankans græddu um of á kostnað þjóðarinnar.

Því verður ekki neitað, að þingið hefir farið mjög gálauslega með rjett sinn til þessara yfirráða, því í stað þess að gæta þeirrar sjálfsögðu skyldu, að þeir, sem í bankaráðið væru kosnir, gætu t. d. aðstöðu sinnar vegna haft eftirlit með rekstri bankans og gripið inn í, ef þurfa þætti, þá hafa til þessa starfa oft og löngum verið valdir menn sinn af hverju landshorni, eða verið störfum hlaðnir, svo þeim hefir verið ókleift að inna verkið af hendi. En þetta liggur í því, að þessar bankaráðsstöður hafa verið gerðar að pólitískum bitlingum í þinginu, sem flokkarnir hafa togast um sín á milli, og hefir því kosning í bankaráðið bygst á alt öðru en því, sem hún átti að byggjast á. Staðan hefir verið veitt eftir því, hver hefir þótt best að því kominn innan flokkasambandanna, og ekki ósjaldan hefir sá hlotið, sem duglegastur hefir verið að bera sig eftir björginni. En þessi óheillaaðferð hefir smátt og smátt lamað ábyrgðartilfinningu þingsins fyrir því, hve geysilega þýðingu þessi yfirráð bankaráðsins yfir Íslandsbanka hafa í raun og veru. Og það er heldur ekki nema eðlilegt, að þetta hafi einnig lamað ábyrgðartilfinningu þeirra, sem kosnir hafa verið í bankaráðið, eða að þeir hafi ekki eins ljóst fundið til þeirrar skyldu og ábyrgðar, sem á þeim hvílir.

En jeg vona, að þess verði ekki langt að bíða, að menn sjái, að þetta fyrirkomulag er ófært og ómögulegt.

Jeg get ekki annað en kent um skorti á ábyrgðartilfinningu hjá þeim, sem nú sitja í bankaráðinu, að ekki skuli vextir enn hafa verið lækkaðir í Íslandsbanka.

Vextir bankans eru nú og hafa verið alllengi 8% forvextir, að viðbættu framlengingargjaldi, sem er 10% af forvöxtunum, og reiknað er þegar fyrstu 3 mánuðirnir af lánstímanum eru liðnir, og það alveg eins, þótt samið sje um lánið til lengri tíma. En þetta verður sem næst því að teknir sjeu 9 af hundraði hverju.

Hjá Landsbankanum eru vextirnir 1% lægri og hafa verið það síðan fyrst í ágúst í sumar. Til samanburðar má geta þess, að Nationalbanken í Danmörku tekur aðeins 5½%, en útlánsvextir banka þar eru 6½%. Þar er og ekkert framlengingargjald, að því er jeg best veit. Í Englandsbanka eru vextirnir 4½%, en útlánsvextir banka þar 5½%.Þetta sýnir nú að jeg held ljóslega, hverjum tökum Íslandsbanki tekur á sínum viðskiftamönnum hvað vaxtakjörin snertir. Þá er gróðinn á gengismuninum ekki skorinn við neglur. Enda ber reikningur bankans fyrir árið sem leið það með sjer, að þar er ekki til einksis barist, þar sem hreinn gróði bankans hefir orðið á því ári 2200000 krónur.

Þegar þess er nú gætt, að árið sem leið var eitthvert það allraerfiðasta ár, sem komið hefir yfir alla, og ekki síst framleiðendurna, og að framleiðslan er að mestu eða öllu leyti rekin fyrir lánsfje, þá dylst það engum, hvað slíkur óskapagróði á einu ári er óeðlilegur, og stappar þá nærri, að mínu viti, að slíkar aðfarir bankans sjeu algerlega gagnstæðar því, sem á að vera aðalhlutverk hans samkvæmt skýlausum lagabókstaf í lögum frá 1905, sem sje að ljetta undir með og efla atvinnuvegina.

Bankinn hefir að vísu tapað miklu fje hin síðustu ár, ekki síður en aðrir bankar, og auðvitað þarf hann að vinna sig upp að eignum og áliti. Það er alveg rjett. En hann verður að gera það á þann hátt, að atvinnuvegirnir, sem fjárhagslegt sjálfstæði þjóðarinnar byggist á, verði ekki lagðir á höggstokkinn með því að gera þeim svo erfitt fyrir, að þeir geti ekki undir risið. Það dugir ekki fyrir bankann að ætla sjer það að ná upp tapinu öllu á einu eða tveimur árum og nota sjer það, að menn eru nauðbeygðir að skifta við bankann eftir sem áður, heldur verður að dreifa því á fleiri ár, að svo miklu leyti sem bankinn álíst hafa siðferðilegan rjett sem stofnun til að vinna tapið upp á þennan hátt.

Auk þess ef þessi aðferð einnig tvíeggjað sverð fyrir bankann, því hagur hans hlýtur þó að hvíla á því, að atvinnuvegirnir rjetti við og geti borið sig.

Hjer hefði því engin vanþörf verið á að taka í taumana, og það ætti að mega vænta þess, að hin nýja stjórn, eftir hin fögru loforð, sem hún hefir gefið um eflingu atvinnuveganna, það ætti að mega vænta þess, að hún eða sá ráðherrann, sem forsæti á í bankaráðið taki nú rögg á sig og grípi hjer í taumana.

Það verður og heldur ekki annað sagt en að landið hafi rjett bankanum vinsamlega höndina nú á þessum erfiðu tímum, með enska láninu, til þess að ljetta undir með honum til að inna af hendi hlutverk sitt, að endurreisa hina lömuðu atvinnuvegi, auk þeirra hlunninda, sem hann hefir fyrir seðlaútgáfurjettinn, og að honum er, þó lagafyrirmæli sjeu ekki fyrir því, leyft að reka sparisjóðsviðskifti.

Jeg verð því að segja það, að mjer ljet hálfilla í eyrum, þegar rætt var um þetta frv. við 1. umr., þau ummæli, að ef frv. næði fram að ganga, mundi bankinn ef til vill lækka vaxtakjörin, — gera það, sem bankaráðið getur hvenær sem vill látið hann gera skilyrðis- og skilmálalaust og sem bankanum ber fylsta skylda til að gera, samkvæmt hlutverki því, sem honum er ætlað að inna af hendi, og skyldum þeim, sem á honum hvíla gagnvart þjóðinni.

Það, sem látið er í veðri vaka, að bankinn bjóðist hjer til að gera gegn ívilnun á skattgreiðslu til ríkissjóðs, er það eitt, sem hægt er að skylda hann til að gera samkvæmt lögum án þess nein ívilnun komi til. Var Íslandsbanka vitanlega skylt, eins og á stóð, að færa niður vöxtuna að sama skapi að minsta kosti og Landsbankinn gerði. Í raun rjettri bar honum sem seðlabanka, og að því leyti yfirbanka landsins, skylda til að hafa þar forgönguna, og er skuld hans því meiri.

Um frv., sem hjer liggur fyrir, verð jeg annars að segja það, að jeg furða mig á því, að það skuli hafa komið fram. Í fyrsta lagi af því, að jeg veit ekki betur en bankastjórn Íslandsbanka hafi verið samþykk lögum þeim, sem samin voru í fyrra þar að lútandi, og þar við bætist svo, að hluthafar bankans hafa samþykt það, sem bankastjórnin hefir gert í því máli. Virðist þá næsta undarlegt að fara fram á slíkar breytingar þegar á næsta þingi á eftir.

Jeg viðurkenni, að það varð að koma fram með breytingu eða ný ákvæði um það atriði eitt út af fyrir sig, er snertir framtíðarfyrirkomulag seðlaútgáfunnar, hvernig henni skyldi fyrir komið, þar sem ekki voru gerð nein endanleg ákvæði um það á síðasta þingi. Jeg get verið því fyllilega samþykkur, að frestað sje til næsta árs, eins og frv. gerir ráð fyrir, að gera út um það, hvernig að endingu skuli skipa seðlaútgáfunni. Jeg hefði meira að segja getað felt mig við, þótt sú framlenging hefði verið ákveðin til 1924 eða 1925, í staðinn fyrir 1923, því svo kynni að reynast, að þessi frestur, sem frv. þetta setur nú, yrði líka of stuttur. Í fyrra varð niðurstaðan sú í þessu máli, að Íslandsbanki ætti að draga inn seðlafúlguna smátt og smátt, þannig að hann hefði eigi meira úti af seðlum en 8 milj. kr. 31. okt. í haust, og drægi svo inn 1 milj. á ári, þar til komið væri ofan í þá upphaflegu upphæð, sem hann mátti hafa mest úti. 2½ milj. kr. Var þá álitið, að seðlar þeir, sem bankinn samkvæmt þessu hefði í veltunni, ættu að nægja næstu ár. Mátti sjá, að þingið hafði fult hugboð um, að ekki myndi veita af að setja einhverjar hömlur á seðlaútgáfuna, og tel jeg það síst að ófyrirsynju. Jeg er sannfærður um það, að einn verulegur þáttur í því, hvernig nú er komið fyrir okkur fjárhagslega, er sá, hve seðlaútgáfan hefir verið rúm, og þar af leiðandi misbrúkuð. Veldur því hið óskapalos, sem kom á hugi manna á stríðsárunum, tryllingar og gróðafíkn. Þegar svona stóð á, var það vitanlega óskaplega skaðlegt, hvað peningarnir — seðlarnir — lágu lausir fyrir þeim mörgu, sem þreyttu kapphlaup í braski og „spekulationum“, sem meðal annars leiddu það af sjer að koma peningum og verðmætum í landinu í óeðlilegt og vitlaust verð. Þarf ekki annað en benda á húsa- og lóðaverð hjer í Reykjavík og á jörðum þeim, sem gengu kaupum og sölum á þessum árum, að minsta kosti hjer sunnanlands, er óhugsandi að reka búskap á venjulegan hátt sökum dýrleika jarðanna. Reynslan hefir því sýnt það fulláþreifanlega, að það er öll ástæða til að fara nú varlega í þessar sakir. Og jeg er því algerlega mótfallinn að gefa stjórninni heimild til að auka seðlaútgáfuna frekar en nú er orðið. Er það þó ekki svo að skilja, að það byggist á neinu sjerstöku vantrausti á þeirri stjórn, sem nú situr að völdum, heldur á hinu, að jeg treysti engri stjórn til þess af þeirri einföldu ástæðu, að jeg álít það ekki tiltækilegt. Eftir öllum atvikum að dæma, ætti sú seðlafúlga, sem nú er í veltunni og verður að minsta kosti næstu 2 ár, samkvæmt lögunum um seðlaútgáfu Íslandsbanka frá í fyrra, að fullnægja seðlaþörfinni. Skal jeg til samanburðar og þessari skoðun minni til sönnunar nefna hlutfallið á milli viðskifta- og seðlaveltunnar árin 1915, 1916 og 1921. Árið 1915 nam viðskiftaveltan 65 miljónum og 800 þús., en seðlaveltan var það ár 4 miljónir 619 þúsundir = 7%. Árið 1916 nam viðskiftaveltan 80 miljónum, en seðlaveltan tæpum 6 miljónum = 7½%. Árið 1921 er svo viðskiftaveltan 62 miljónir og hlutfallslega við hin tvö árin ætti þá seðlaveltan að nema 4 miljónum 45 þúsundum = 7%, en nú hefir Íslandsbanki leyfi til að hafa 8 miljónir í veltunni 31. okt. í haust, og þar við bætist svo ¾ miljónar, sem Landsbankinn hefir leyfi til að gefa út. Það virðist því síður en svo vera ástæða til að veita heimild til aukinnar seðlaútgáfu. Þessi samanburður sýnir það, að eins og nú er, er frekar ofmikið í umferð af seðlum en að við þurfi að bæta. Nú getur að vísu verið, að talsvert hafi verið af erlendum peningum í umferð hjer árin 1915 og 1916, en aftur á móti má ganga út frá því, að þá hafi líka verið talsvert af íslenskum peningum í umferð erlendis og í erlendum bönkum. Landsbankaseðlar hafa ekki sjest í umferð upp á síðkastið, nema þá krónuseðlarnir, en nú mætti vænta, að þeir fari aftur að koma fram á sjónarsviðið, þar sem komið er sjerstakt verð á íslensku krónuna yfir höfuð.

Hjer við bætist svo, að seðlaútgáfan hefir mikil áhrif á gengi íslensku krónunnar. Ef ætti að gefa út fleiri seðla, þá myndi það óneitanlega stuðla til þess að halda henni niðri. En þótt skiftar skoðanir kunni að vera um það, hvort heppilegt sje, að krónan stígi ört, þá hygg jeg, að flestum beri saman um, að æskilegt væri, að hún stigi frekar en fjelli; en heimild til slíkrar aukningar á seðlaútgáfunni frá því, sem nú er, mundi meðan ekki er hægt að gera seðlana innleysanlega, og það jafnvel þótt hún yrði ekki notuð, veikja lánstraust okkar erlendis og þar með hafa skammarleg áhrif á gengi ísl. krónunnar.

Um önnur atriði frv., sem reyndar eru aukaatriði, skal jeg geta þess, að jeg álít þau ekki til bóta. Eftir því sem mig rekur minni til, þá standa nú yfir málaferli á milli Íslandsbanka og stjórnarinnar, út af því, að bankinn hefir ekki borgað skatt þann allan, sem honum ber, og nemur sú upphæð, sem á milli ber, um 70 þúsund krónum. Er orsökin til þessa sú, að ákvæðin í bankalögunum, sem lúta að skattgreiðslu bankans til ríkissjóðs, voru svo óljóst orðuð, að ágreiningur reis út af því, hvernig þau bæri að skilja. Til þess að þetta kæmi ekki fyrir aftur, var sett skýrt ákvæði um þetta í lögin í fyrra og þar með girt fyrir, að slíkt gæti komið fyrir. Nú sje jeg ekki betur, ef þessum ákvæðum verður breytt eins og frv. gerir ráð fyrir, þá verði orðalagið aftur svo óljóst, að ágreiningur geti aftur upp komið um greiðsluna. Sú ívilnun, sem bankanum er gefin með þessari breytingu, nemur vitanlega ekki miklu fje, svo hvað það snertir skiftir það ekki miklu máli, en í framtíðinni verður það að vera á hreinu, hvað bankanum ber að borga og hvað ekki, og lögin frá í fyrra skera hreint og ótvírætt úr um þetta.

Til samkomulags hefði jeg kannske getað gengið inn á það, að Íslandsbanki þyrfti ekki að greiða nema 1% í stað 2% nú af 7. miljóninni og jafnvel hálfri áttundu miljóninni, en fulla forvexti af því, sem þar er fram yfir.

Þá vil jeg benda á það, að í brtt. fjhn. er ekkert tekið fram um það, hvort þessir aukaseðlar ættu að vera gulltrygðir og hvernig, og svo ekki heldur hvaða gerð ætti að vera á seðlunum. Eru þetta þó atriði, sem að mínu áliti verða að vera skýrt tekin fram.

Skal jeg annars ekki fara frekar út í þetta og vænti þess, að háttv. frsm. upplýsi um þetta; það er nauðsynlegt, ef frv. nær fram að ganga, sem jeg tel síður en svo æskilegt, nema þá með verulegum breytingum.