20.03.1922
Neðri deild: 27. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 630 í B-deild Alþingistíðinda. (638)

19. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka

Bjarni Jónsson:

Jeg vildi aðeins gera nokkrar athugasemdir út af ræðu hv. þm. Borgf. (P. O.). Hjelt hann því fram, að hæstvirt stjórn með aðstoð sjerfræðinga mundi ekki geta betur ákveðið seðlaþörf landsmanna en þingið. Fanst þessum hv. þm. ósamræmi hjá mjer við það, sem jeg áður hefi sagt um, að nauðsynlegt væri, að þingið kæmi saman árlega, til þess að ráða ýmsum vandamálum til lykta. En ef hv. þm. gætir betur að, þá er ósamræmið hjer ekki svo mikið, því að það er nokkuð annað fyrir stjórnina að ráða seðlaútgáfunni og ákveða hana eftir því, sem þörf krefur, en að ráða fram úr, svo vel fari, mikilsverðum vandamálum, þegar Alþingi situr heima og þess er langt að bíða, að það komi saman.

Hæstv. stjórn hefir og betri aðstöðu í þessu máli með aðstoð sjerfræðinga en þing yfirleitt, því að þótt nokkrir þingmenn hafi vit til þess, eru þó tillögur þeirra bornar undir alla hv. þingmenn, sem misjafnt vit hafa á því, og geta því hæglega orðið feldar. Þessar umgetnu skoðanir mínar eru því í fullu samræmi. Áður hefir það líka verið nefnt, að ef menn tryðu ekki stjórninni til fulls, þá er hægur vandinn að ákveða nefnd, er ætti sæti með stjórninni í þessum málum. Mætti slík nefnd vera skipuð bankastjórunum og mönnum frá helstu atvinnuvegum landsins, einum eða tveimur frá hverjum. Stjórninni væri og innan handar að nota bestu sjerfræðinga eins og áður hefir verið minst á.

Hv. þm. Borgf. (P. O.) sagði og, að vjer þyrftum ekki eins mikið veltufje og aðrar þjóðir tiltölulega. Þetta er ekki rjett. Hjer er því svo háttað, að einn atvinnuvegurinn, sem þó ekki er fjölmennastur, þarf meira fje en allir aðrir. Er því skiljanlegt, að veltufjeð á hvern mann verður að vera meira hjer en í öðrum löndum.

Hv. þm. Borgf. talaði og um að knýja Landsbankaseðlana fram á markaðinn. Jeg er að vísu ekki nægilega kunnugur til að segja um það, hvort hann heldur miklu inni af seðlum sínum, en líklegt þykir mjer, að það sje ekki mikið. Þegar vjer gætum þess, að hann heldur frá markaði því, sem nemur upphæð krónuseðlanna, er hann hefir gefið út, og þegar vjer gætum og að því, að það eru helst Landsbankaseðlar, sem eru í umferð milli landa, því að í Kaupmannahöfn hafa þeir verið innleystir með 1% afföllum, þá skiljum vjer það, að lítið er af þeim á markaðinum. Sama orsökin liggur til þess, að þeir eru horfnir og t. d. tíeyringar og tuttugu-og-fimmeyringar. Menn hafa látið þessa peninga út úr landinu, til þess að þurfa ekki að borga eins mikil afföll. Þegar þessa alls er gætt, er líklegt, að mjög litlu sje haldið inni.

Einnig sagði hv. þm. Borgf., að jeg hefði kastað sök á fyrv. hæstvirtan forsætisrtáðherra. Það er heldur ekki rjett. Jeg kastaði sök á engan mann, allra síst vildi jeg gera það við fjarverandi mann. Jeg sagði það aðeins, að þingkjörnir ráðsmenn Íslandsbanka hefðu ekki vald til að kalla saman fund, ef forsætisráðherra gerir það ekki, og við það stend jeg. Þetta var því einnig rangt hjá þessum hv. þm.