24.03.1922
Efri deild: 28. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 640 í B-deild Alþingistíðinda. (645)

19. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka

Fjármálaráðherra (Magn. J.):

Við ræðu háttv. 2. þm. G.-K. (B. K.) hefi jeg eigi að gera nema fáar og smáar athugasemdir, því í aðalatriðunum falla skoðanir okkar saman.

Rauði þráðurinn, sem mjer virtist ganga í gegnum ræðu háttv. þm., var gætnin í seðlaútgáfunni. Og hennar er full þörf, því reynslan hefir of oft sýnt, að þótt ríki og þjóðir hafi rekið sig á í þessum efnum, þá hefir það fljótt gleymst, þegar betur áraði, svo alt hefir sótt í sama horfið.

Viðvíkjandi samanburði á seðlaveltu, sem háttv. þm. kom með, skal jeg geta þess, að jeg hefi eigi þær tölur við hendina, en efast ekki um það, að rjett sje með þær farið. En þess er að gæta, þegar samanburðurinn er gerður á vexti seðlaumferðar síðan 1913, að taka ber tillit til verðgildis seðlanna nú. Þó t. d. seðlaumferðin hafi aðeins tvöfaldast í Svíþjóð, en fjórfaldast hjer, þá stendur sá mismunur í beinu hlutfalli við verðgildismun peninganna. Þrjár miljónir þar svara til 6 miljóna hjer.

Þetta er ekki sagt sem mótbára, heldur sem athugasemd.

En jeg vil aftur mæla á móti því, að eigi sje vert að leita álits bankastjórnarinnar um þau mál, sem hana varða, af þeirri ástæðu, að hún líti einungis á sinn hag.

En þetta hvorki má vera nje getur verið rjett. Í lögum bankans stendur, að hann eigi fyrst og fremst að líta á hag og heill þjóðarinnar og greiða fyrir viðskiftum. (B. K.: Þetta er þó reynslan). Þann tíma, sem jeg á yfir þeim að sitja, verða bankarnir að hafa lögboðið og yfirlýst markmið sitt og ekki annað fyrir augum.

Það sem háttv. þm. sagði um það atriði, að eigi mætti sami banki reka seðlaútgáfu og sparisjóðsstarfsemi, þá álít jeg það of þröngt sagt. Gildir það yfirleitt, að seðlabanki verður að leggja aðaláherslu á seðlapólitíkina, og í nánu sambandi við hana rentu- og „valuta“-skipulag. Hann á fyrst og fremst að vera „banki bankanna“, og þar sem ekki eru nógu margir aðrir bankar svo að þetta geti orðið, verður bankinn þó að láta önnur störf sín alveg lúta þessum aðalverkefnum.

Viðvíkjandi óinnleysanlegu seðlunum er jeg háttv. þm. samdóma. Hygg jeg reyndar, að allir sjeu það og menn skilji frekar á um leiðirnar til að gera þá innleysanlega heldur en að menn vilji ekki að þeir sjeu það.

En það er erfitt, og skiljanlegt að það valdi ágreiningi, hve brátt á að draga saman seglin, eftir aðra eins kreppu og hjer er komin. En að því marki þarf að keppa, að peningar okkar verði innleysanlegir.

Jeg skal leyfa mjer að taka það fram, að jeg get ekki að neinu leyti haft á móti því, að heimild stjórnarinnar til þess að leyfa seðlaútgáfu standi áfram eins og upprunalega stóð í frv. Eins og það nú er breytt, er heimildin bundin við Landsbankann, en það er aukaatriði. Þeir seðlar, sem hann gefur út, eru nauðsynlegir til þess að greiða fyrir innlendum viðskiftum.

Annars skal jeg ekki fjölyrða að sinni, en vildi aðeins gera þessa stuttu athugasemd.