24.03.1922
Efri deild: 28. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 642 í B-deild Alþingistíðinda. (646)

19. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka

Sigurður Hjörleifsson Kvaran:

Jeg þykist sjá, að óhjákvæmilegt sje að gera þá breytingu á lögum nr. 6, 31. maí 1921, að í stað „1922“ í 3. málsgr. 2. gr. komi „1923“, eða einhver önnur tala. Úr því enginn undirbúningur hefir farið fram um endanlega skipun seðlaútgáfunnar, verður ekki hjá þessari breytingu komist.

En annars vildi jeg segja það, að jeg er alls ekki við því búinn að gjalda jákvæði mitt við öðru efni þessa frv., hvort heldur er í þeim búningi, sem frumvarpið var í, er það kom frá stjórninni, nje heldur í þessum sparifötum, sem það nú kemur í frá háttv. neðri deild.

Vil jeg þá fyrst taka það fram um 4. gr. laganna frá 31. maí 1921, að svo verður að líta á, sem 4. gr. nefndra laga sje samningur milli þings og stjórnar annars vegar og Íslandsbanka hins vegar, enda hafa þau lög hlotið samþykki rjettra málsaðilja. Og þótt Íslandsbanki eða stjórn hans væri ekki alls kostar ánægð með þann samning, virðist mjer það fremur lítil kurteisi að heimta breytingu á þeim samningi — sjer til hagsbóta — þegar á næsta þingi. Og því minni ástæða sýnist mjer til breytingarinnar að þessu sinni, þar sem hún nær helst til 8. miljónar seðlafúlgunnar, sem engin vissa er fyrir, að verði í umferð, síst að mun, fram til næsta þings.

Þó vil jeg strax taka það fram, að það eru fleiri efni en sjálft innihald þessa frv., sem gerir mig deigan í því að sýna bankanum nú sjerstaka tillátssemi. — Jeg á þar við stjórnarfar bankans.

Eins og mönnum er kunnugt, heldur bankinn uppi útlánsforvöxtunum í landinu, svo að lítið hóf sýnist vera á, og síðan í byrjun ágústmánaðar f. á. 1% hærri vöxtum en Landsbankinn. Á langmestum hluta þeirrar fúlgu, sem bankinn lánar út, eru þessir vextir um 9%, og bendir það til þess, að bankanum er síður en hitt umhugað um að líta á örðugleika atvinnuveganna í landinu. Á hitt bendir þetta óneitanlega, að bankinn flaski þar á því skerinu, sem hæst stendur upp úr viðskiftahafinu, að líta of mikið á sinn eiginn hag.

Þessir háu forvextir yrðu þó fremur afsakanlegir, ef bankinn byði þeim landsbúum, er lána honum peninga, hærri forvexti en hann gerir, byði þeim að minsta kosti ekki lægri vexti en hann sjálfur verður að greiða í útlöndum fyrir það fje, sem hann lánar þar. Þarna fylgjast báðir bankarnir að í mesta bróðerni, og er mismunurinn á innláns- og útlánsvöxtum að því er Íslandsbanka snertir 4%, og bendir það eigi til neinnar feimni við landsbúa.

Fyrir rúmum áratug síðan komust bankarnir af með 1%–2% mismun á innláns- og útlánsvöxtum, og fór þá reyndar að mörgu leyti betur en nú. Alt hnígur hjer að því sama, að hafa sem mestan haginn af landsmönnum, enda verður ekki annað sagt en að bankanum hafi tekist vel að raka að sjer peningum.

Árið 1918 er ágóði bankans 1615765 kr.

“ 1919 “ “ “ 2224817 —

“ 1920 “ “ “ 1740961 —

“ 1921 “ “ “ um 2200000 —

Bankanum hefir tekist vel að afla fjárins, en hitt síður, að gæta þess, og þarf ekki að fara um það fleiri orðum hjer.

En svona mikils fjár getur bankinn ekki aflað nema það komi hart niður á atvinnuvegum landsins, og þess vegna er þessi gróði fullkomið íhugunarefni bæði fyrir þing og stjórn.

Árið 1921 er eitt mesta gróðaár bankans, en á því sama ári liggur öllum atvinnuvegum landsins við hruni.

Ætli það hefði ekki verið hollara þessu landi, að helmingur þessa mikla gróða hefði fengið að vera kyr í vösum atvinnurekendanna? Ætli það hefði ekki verið eins holt fyrir Íslandsbanka sjálfan?

Mjer liggur við að halda það.

Þegar togaraveiðin er hrunin, ef til vill fyrir ónærgætni bankanna, missa þeir áreiðanlega vænan spón úr aski sínum.

Hvað þessi nærgætni er mikil, má meðal annars sjá af þessu skjali, sem jeg skal leyfa mjer að lesa upp með leyfi hæstv. forseta. Það er skuldbinding, sem nýlega er komin á flakk, að sögn frá báðum bönkunum, og forstjórum útgerðarfjelaganna er ætlað að skrifa undir.

Hún hljóðar svo:

„Undirritað

lofar hjer með að láta stjórn

banka í tje, eftir ósk hennar, skriflega eða munnlega og á hvaða tíma, sem er, fulla vitneskju um útgerð fjelagsins, svo sem um aflann, hve mikill hann er og hverjar fiskitegundir, um geymslu á honum, verkun, um sjerhverja ráðstöfun um sölu aflans eða afhendingu, svo og um alt annað útgerðinni viðvíkjandi, er þýðingu geti haft fyrir bankann að fylgjast með í sem lánveitanda“.

Við þennan fyrsta kafla hefi jeg ekkert að athuga. — En svo heldur þetta skuldbindingarskjal áfram:

„Að því er til sölu aflans kemur, er oss skylt að leita samþykkis bankans til sölunnar, og hvort heldur aflinn verður seldur erlendu eða innlendu fiskifirma eða kaupmanni, þá lofum vjer að áskilja að kaupandinn greiði fiskinn í útlendri mynt, nema bankinn samþykki annað, og ber oss jafnframt að bjóða bankanum þá þegar myntina til kaups og gefa honum þannig kost á að ráða yfir henni í sínar eigin og atvinnuvega landsins þarfir. Einnig lofum vjer því, að bjóða bankanum til kaups þá erlenda mynt, er vjer á hvaða tíma sem er höfum til sölu, hvort heldur er hjer á landi eða erlendis.

Fyrir hina útlendu mynt áskiljum vjer oss að bankinn greiði oss sem svarar því, að vjer fáum 50 — fimtíu — aurum minna fyrir hvert sterlingspund heldur en útsöluverð bankanna verður á þeim tíma, þegar vjer getum afhent bankanum myntina, eða heldur en opinberlega skráð gengi á sama tíma verður, ef opinber skráning skyldi komast á.

Það sem hjer að ofan er fram tekið, gildir meðan viðskifti standa milli bankans og vor og meðan bankinn veitir oss lánstraust eða telur til skuldar hjá oss‘.

Það virðist nokkuð harðleikið að banna að selja afurðir landsins í íslenskri mynt, þegar útgerðarfjelagið kynni að sjá sjer hag í því og verða með því færara til þess að greiða bankanum það lán, er það hafði þegið af honum.

Það virðist nokkuð ásælniskent að heimta, að útgerðarfjelagið láti myntina af hendi, þó það geti sannað, að það geti fengið mun hærra verð fyrir hana.

Fara ekki atvinnuvegirnir að verða nokkuð ótryggir, þegar ekki má selja afurðir landsins nema fyrir erlenda mynt og bankarnir jafnframt hafa trygt sjer öll yfirráðin yfir henni, en þeir hinsvegar orðnir einvaldir um það, hvað þeir vilja meta hana?

Jeg efast ekki um, að bankarnir geti grætt vel á þessu, en jeg efast um, að hægt sje að segja að sá gróði sje vel fenginn.

Og þó er hjer meira blóð í kúnni. Þessi skuldbinding á að standa meðan bankinn telur til skuldar hjá hverju fjelagi, eða, með öðrum orðum, þangað til þrotabúið er gert upp.

Mjer skilst, að reynt verði að afsaka slíka ráðstöfun með því, að þetta eigi að miða til þess að halda uppi gengi ísl. krónunnar. Jeg skil ekki, að rjettlátt sje að leggja þyngri kvöð á nokkurn atvinnuveg en honum ber að bera eftir hlutarins eðli og þörfum atvinnuvegarins sjálfs.

Jeg hefi rætt þetta hjer frammi fyrir hæstv. stjórn í þeirri von, að henni þyki þetta mál svo mikilsvert, að hún vilji láta það til sín taka. Því fer fjarri, að jeg sje að heimta hjer að hún segi nú þegar, hvernig hún vill láta málið til sín taka, en jeg efast ekki um, að því verði veitt athygli í þessu landi, hvern skörungsskap hún sýnir um það.

Jeg las um það einhverntíma í Englandsögu frá 16. öldinni, að Englendingum þótti páfakirkjan gerast nokkuð djarftæk til fjárins við alþýðu manna, og þá varð það að herópi þar í landi, að guð hefði gefið páfanum sauði sína — og er þar átt við mannskepnurnar — í því skyni, að hann hjeldi þeim á beit, en ekki til þess að flá af þeim bjórinn.

Bankarnir eru páfar atvinnuveganna á vorum tímum.

Páfarnir eru tveir hjer á landi og skal jeg síst lasta það. Bróðernið hefir verið stundum nokkuð grátt á milli þeirra, dálítið svipað því sem það var á milli páfanna, þegar þeir voru tveir og bannfærðu hvor annan, og ekki hefir slíkt orðið landinu til farsældar. Samkomulagið best um það að ná sem mestum hagnaði af alþjóð manna. Annars vona jeg, að jeg hafi með þessum fáu orðum fært nokkur rök að því, að ekki sje ástæðulaust að biðja þá um að halda atvinnuvegunum á beit, í stað þess að flá af þeim bjórinn.