24.03.1922
Efri deild: 28. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 647 í B-deild Alþingistíðinda. (648)

19. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka

Björn Kristjánsson:

Jeg hefi aðeins litlu hjer við að bæta. Vildi þakka hæstv. fjrh. (Magn. J.) svar hans, sem jeg í engu get sett út á, þar eð hann var mjer samþykkur í öllum aðalatriðunum. Annars skal jeg geta þess, að þetta er í fyrsta sinni síðan jeg kom á þing, sem jeg hefi heyrt ráðherra tala af nokkrum skilningi um seðlabankafyrirkomulag.

Það má vel vera, að mönnum hafi þótt jeg nokkuð harðorður í garð bankastjóra seðlabanka um að eigi sje altaf hægt að byggja dóm sinn á áliti þeirra um seðlaútgáfu, en skjalið, sem lesið var upp hjer í deildinni, hygg jeg þó, að hafi nokkuð sannað mál mitt um hversu freklega þeir beiti sjer stundum til hagsmuna fyrir bankana. Jeg hefi ekkert út á það að setja; tel það jafnvel skyldu bankastjóranna að hugsa vel um hag síns banka, en um leið og þeir gera það, þá verða þeir þó að taka tillit til landsins sjálfs og sýna eitthvert hóf í gróðahug sínum. Stjórnin getur ekki treyst bankastjórunum til að dæma um þörfina á seðlaútgáfu. Skal jeg í því sambandi minna á að ríkisþing Dana telur sig ekki geta treyst till. bankastjóra Þjóðbankans, er um seðlaútgáfu er að ræða.

Annars er jeg fullkomlega samþykkur hæstv. fjrh. um það, að rjett sje að fara gætilega í það að draga inn seðlana, enda fór þingið seinast mjög gætilega í það mál 1921.

Jeg hjó eftir því í ræðu háttv. 2. þm. S.-M. (S. H. K.), að óheppilegt væri að láta sömu menn, sem kaupa gjaldeyri og selja, vera matsmenn á gengi hans. Get jeg fyllilega tekið undir með honum.