15.04.1922
Efri deild: 44. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 654 í B-deild Alþingistíðinda. (652)

19. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka

Guðmundur Ólafsson:

Jeg vil þá fyrst minnast fáeinum orðum á ræðu háttv. 2. þm. S.-M. (S. H. K.). Hann kvað sig vera mótsnúinn síðari hluta 1. gr. og lagði móti því, að hún yrði samþykt óbreytt. Hjelt hann því fram, að hjer væri verið að smeygja inn aukinni seðlaútgáfu. Taldi hann þess síst þörf, þar sem báðir bankarnir hefðu mikla seðlaútgáfu. En um Landsbankann er ekki hægt að segja, að hann hafi mikla seðlaútgáfu. Það var heldur aldrei ætlun meiri hluta nefndarinnar að smeygja inn auknum útgáfurjetti, heldur aðeins gefa stjórninni heimild til, ef óhjákvæmilegt reyndist, vegna viðskifta innanlands, að gefa út nokkra upphæð umfram það, sem lögin frá 1921 heimila. Annars heyrðist mjer á háttv. þm., að honum væri ekkert kappsmál, að þessi brtt. hans næði fram að ganga, eða stórhættulegt væri, ef frv. yrði samþykt.

Háttv. 2. þm. G.-K. (B. K.) bar fram allmargar spurningar, sem hann beindi til meiri hluta nefndarinnar. Var jeg eigi lítið hissa á því, hversu hann gat spurt mikið, og virtist mjer frv. vera skilningi hans hreinasta ráðgáta, eftir spurningum hans að dæma, þrátt fyrir það, þótt í frv. felist svör við þeim flestum, ef það er annars lesið með nokkurri athygli og skynsemi. Lýsti hann átakanlega hversu þm. væru sjer jafnan mótsnúnir, er til bankamálanna kæmi, og gætu aldrei opnað augun fyrir fjárhagslegri velferð landsins. Jeg verð nú að telja það einstökustu fyrirmunun, ef enginn háttv. þm. hefir getað lært af honum öll þau ár, sem hann hefir setið á þingi og frætt menn um þessi mál. Hann áleit, að ef þetta frv. yrði samþykt, þá yrði útgáfurjetturinn ótakmarkaður. En það er nú skýrt tekið fram í 1. gr. frv., að stjórnin má ekki nota þessa heimild nema óhjákvæmilegt sje og er naumast hægt að kveða sterkara eða skýrara að orði. En auðvitað verður stjórnin sjálf að ákveða og bera ábyrgð á, hvort svo brýn þörf er fyrir hendi. Hann kvað frv. þetta mundu raska einkarjetti Íslandsbanka um að gefa út seðla. Eins og háttv. þm. veit, er meiri hluti nefndarinnar hvorki lögfróður nje bankafróður, en það get jeg sagt, að ekki hefir bankastjórn Íslandsbanka gefið á neinn hátt í skyn, að rjettur bankans væri með þessu frv. fótum troðinn.

Hann spurði og að því, hverskonar seðlar þetta ættu að vera, sem gefnir yrðu út, hvort Íslandsbankaseðlar eða Landsbankaseðlar, eða ný tegund seðla. Jeg tel sjálfsagt, að fari svo, að stjórnin álíti óhjákvæmilegt að gefa út nýja seðla, þá verði það ríkissjóður, sem gefi þá út í sömu mynd sem Landsbankaseðlana.

Þá sagði háttv. þm., að eigi væri tiltekið hvort þessir seðlar ættu að vera málmtrygðir eða ómálmtrygðir. Það er satt. En ætlast er til, að þeir verði málmtrygðir að nokkru, eins og seðlar Íslandsbanka eru nú en af þeim seðlum, sem ekki eru trygðir, á að gjalda til ríkissjóðs gjald, er sje 2% undir forvöxtum bankans.

Enn spurði háttv. þm. að því, hver eða hverjir ættu að ákveða, hvað mikið yrði gefið út af nýjum seðlum. Þessari spurningu verður að svara á sama hátt og einni áðurnefndri spurningu, að það er stjórnin sem ákveður alt viðvíkjandi útgáfu seðlanna, og er henni þá innan handar að leita álits og aðstoðar bankafróðra manna hjer, og þá ekki síst 2. þm. G.-K.

En hvernig færi nú, ef greinin yrði feld? Mundi ekki stjórnin þrátt fyrir það verða að gefa út nýja seðla eftir bráðabirgðalögum. ef hún teldi „óhjákvæmilegt“?

Jeg held, að öllum háttv. þdm. sje ljóst svarið við þessari spurningu. Auðvitað yrði stjórnin þá að grípa til þess rjettar, sem hún hefir, og gefa út bráðabirgðalög um seðlaútgáfuna. Og útkoman yrði því sú sama, enda komst háttv. þm. að líkri niðurstöðu. En hitt er óviðkunnanlegt, að þingið ætlist beinlínis til, að stjórnin gefi út bráðabirgðalög á sína eigin ábyrgð um sama efni og það hefir ekki treyst sjer til að taka ákvörðun um.