15.04.1922
Efri deild: 44. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 656 í B-deild Alþingistíðinda. (653)

19. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka

Fjármálaráðherra (Magn. J.):

Mig langaði til að skjóta inn athugasemd áður en umræður fara lengra.

Það, sem mjer virðist háttv. fjhn. bera helst á milli, er það atriði, hvernig skuli með fara, ef meiri seðlaútgáfu þarf óhjákvæmilega en gert var ráð fyrir af síðasta þingi.

Háttv. frsm. virtist þetta ganga í þá átt að raska grundvelli laganna frá í fyrra. En það álít jeg svartsýni. Þetta ákvæði, sem er í 2. málsgrein 1. gr., er breyting, sem gerð var á frumvarpinu af háttv. fjhn. Nd„ og skal jeg geta þess, að það var ekki eftir tillögum stjórnarinnar.

Í báðum tilfellunum er eingöngu að minnast á ársskipulag seðlaútgáfunnar. Í stað 1. júní 1922 er sett 1923. — Mjer finst tillagan ganga út á það að láta ekki órætt um það, hvernig skuli fara með seðla þá, sem hverfa úr umferð, ef þörf verður meiri seðla. Með lögum frá því í fyrra er gert ráð fyrir, að fyrir 1. júní þ. á. skuli ákveðið verða, hvernig seðlaútgáfurjettinum skuli hagað framvegis. Með frv. er svo gerð breyting á þessu með því að fresta um eitt ár þessum ákvæðum. Jeg get ekki álitið, að 2. málsgr. 1. gr. sje í nokkru hættuleg, því þar stendur, eins og tekið hefir verið fram, að stjórnin skal ekki auka seðlaútgáfuna, nema óhjákvæmilegt sje, og fari svo að það verði, þá hefir stjórnin altaf heimild til að gera það á sína ábyrgð. Munurinn er því í raun rjettri enginn. Jeg treysti mjer heldur ekki að gera upp á milli orðanna „brýn nauðsyn“ og „óhjákvæmilegt“, þannig að í hinu síðara felist frekari heimild en í hinum fyrri.

Sú breyting, sem verður ef þetta frv. verður að lögum, er í raun og veru sára lítil. Eins og háttv. deildarmönnum er kunnugt, þá getur stjórnin gefið út bráðabirgðalög um þetta efni, ef henni þykir brýn nauðsyn bera til. Nú þykjast menn sjá fram á, að rekið geti að því, að þessi nauðsyn verði fyrir hendi, og er þá í alla staði eðlilegra, að þingið setji lög um slíkt en að stjórnin þurfi að taka það upp hjá sjálfri sjer.

Hjer er aðeins að ræða um möguleika fyrir skipulagsbreytingu og nær heimildin aðeins til eins árs, eða er eiginlega framlengd frá lögum nr. 6, 1921. Jeg get því eigi sjeð, að mikið sje leggjandi upp úr breytingu háttv. Nd., að það skuli vera Landsbankinn, sem taki við þessari seðlaaukningu, ef hún verður nokkur. Hjer er ekkert um það sagt, hvernig þessu máli skuli ráðið til endanlegra lykta, og held jeg því, að óþarft sje að fara frekar út í það efni. Það gefur tilefni til margvíslegra spurninga, eins og háttv. 2. þm. G.-K. (B. K.) tók rjettilega fram, því að ef á að ræða eitt atriði seðlafyrirkomulagsins, er freistandi að fara út í fleira, því að þetta er alt samhangandi kerfi. Það verður að rannsakast á sínum tíma og reyna að ráða því þá til sem heppilegastra lykta, en hjer er aðeins um árs skipulag að ræða, og væri vel farið, ef menn hjeldu sjer við það.