15.04.1922
Efri deild: 44. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 663 í B-deild Alþingistíðinda. (656)

19. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka

Guðjón Guðlaugsson:

Það var eitt atriði í ræðu háttv. 2. þm. S.-M. (S. H. K.), sem jeg fæ eigi skilið, að sje rjett athugað hjá honum. Hann hjelt því fram, að ef seðlar Landsbankans, sem nú liggja ónotaðir hjá bankanum, kæmu í gang, þá mundi það bæta úr þeim seðlaskorti, er nú væri. Mjer er vel kunnugt, að nokkuð liggur fyrir í bankanum af Landsbankaseðlum — hefi sjálfur verið við að telja þá — en á því stendur þannig, að bankinn þarf jafnan að hafa mikið af seðlum fyrirliggjandi, og hefir honum þótt tryggast að hafa það sína eigin seðla, en láta aftur á móti Íslandsbankaseðla vera í umferð. Jeg býst við, að bankinn haldi þessari venju framvegis og hafi þann forða, sem ávalt er nauðsynlegt að hafa fyrir hendi, í sínum eigin seðlum, og þótt þessir seðlar kæmust í umferð jafnt Íslandsbankaseðlum, þá yrði það engin seðlaaukning. Sama villan er með skiftimyntina; hún er engin aukning gjaldeyris fremur en krónuseðlarnir.