15.04.1922
Efri deild: 44. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 663 í B-deild Alþingistíðinda. (657)

19. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka

Halldór Steinsson:

Allir háttv. þm., sem hjer hafa tekið til máls, eru sammála um það, að eigi beri að auka seðlaútgáfuna, nema brýna nauðsyn beri til, og eins hafa háttv. deildarmenn viðurkent, að sú nauðsyn geti að borið. Aðaldeiluefnið er það, hvort þessu skuli skipað með lögum nú eða vísað til stjórnarinnar.

Jeg fyrir mitt leyti er fylgjandi brtt. háttv. 2. þm. S.-M. (S. H. K.) og furða mig á því, að sumir þeir háttv. þm., er styðja stjórnina, geta eigi aðhylst þær.

Enda þótt jeg sje eigi stuðningsmaður núverandi stjórnar, þá get jeg þó fyllilega treyst henni í þessu máli. Með brtt. er slegið fastri þeirri stefnu, er kom fram á síðasta þingi, að auka eigi seðlaútgáfuna, nema óumflýjanleg nauðsyn beri til.

Eitt atriði er það enn, sem jeg hefi eigi fengið svar við hjá háttv. 2. þm. G.-K. (B. K.). Hverskonar seðlar eru það, sem gefnir verða út? Eru það Landsbankaseðlar eða Íslandsbankaseðlar, eða II. fl. Landsbankaseðlar? Og getur eigi verið hætta á því, að þeir verði settir undir lás, svo sem nú á sjer stað, og komi alls eigi til umferðar?

Enn vil jeg, og þá sjerstaklega sem viðskiftamálanefndarmaður, beina þeirri spurningu til hæstv. stjórnar, og einkum hæstv. fjármálaráðherra, hvaða tryggingu stjórnin hafi tekið hjá Íslandsbanka fyrir þeim hluta enska lánsins sem lenti hjá bankanum.