25.04.1922
Efri deild: 53. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 944 í B-deild Alþingistíðinda. (66)

Starfslok deilda

Halldór Steinsson:

Háttv. deildarmenn! Við eigum nú á bak að sjá forseta okkar og tveimur þm. öðrum, og bið jeg ykkur að standa upp í virðingarskyni við þá.

(Þm. risu úr sætum sínum og hlýddu standandi á ræðuna).

Herra forseti! Þjer hafið nú í 8 ár stýrt störfum þessarar deildar, og þó að þjer viljið ekki leggja dóm á verk yðar, þá vil jeg það í nafni deildarinnar, því að við getum dæmt um það af reynslu og þekkingu.

Engum skyldi detta það í hug, að forsetastarf sje vandalítið verk. Það er eitt vandamesta og ábyrgðarmesta starf, sem þm. verður falið. Og þegar við lítum yfir þessi 8 ár, er okkur ljúft, herra forseti, að gefa yður þann einróma vitnisburð, að þjer hafið verið rjettlátur, samviskusamur, árvakur og lipur forseti. Vjer eigum nú á bak að sjá tveim öðrum þm. og vjer söknum yðar allra. Og ef vjer eigum ekki að verða fyrir því láni að sjá einhvern yðar hjer aftur sem landskjörinn eða kjördæmakjörinn þm., þá eigum vjer ekki aðra ósk betri en að sæti yðar megi skipa aðrir menn jafngóðir. En þá ósk getum vjer því miður ekki alið viðvíkjandi sæti yðar, herra forseti. Jeg þekki engan núlifandi Íslending, sem jeg treysti til að skipa það jafnvel og þjer hafið gert. Nú kveðjum vjer yður, herra forseti, og þökkum yður langt og vel unnið starf, og þó að þjer skiljið við okkur nú í bili, væntum við þess að eiga eftir að sjá yður seinna prýða forsetastól þessarar háttv. deildar.