07.03.1922
Efri deild: 15. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 676 í B-deild Alþingistíðinda. (695)

27. mál, skipting Húnavatnssýslna í tvö kjördæmi

Guðmundur Ólafsson:

Jeg ætla að láta fáein orð fylgja þessu frv., þó að með því sje allítarleg greinargerð. Kjósendur okkar þingmanna Húnvetninga óskuðu, að við flyttum þetta frv. og sáum við ekki ástæðu til að vera á móti því. Vestursýslan vill þessa skiftingu og Austursýslan hefir ekkert á móti henni, og er þá óþarfi að amast við skiftingunni, þar sem hún er engum til baga. Austursýslan er að vísu talsvert fólksfleiri, en jeg lít svo á, og eins hygg jeg að fleiri geri að rjettara sje, að hver sýsla hafi sinn þm., heldur en að farið sje eingöngu eftir kjósendatölu. Þessu frv. fylgir enginn kostnaður og það hefir engri mótspyrnu mætt í háttv. Nd., og vænti jeg, að því verði eins vel tekið hjer. Jeg tel eðlilegast, að frv. fari til allsherjarnefndar, samskonar nefndar og hafði það til meðferðar í Nd.