24.03.1922
Efri deild: 28. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 678 í B-deild Alþingistíðinda. (700)

27. mál, skipting Húnavatnssýslna í tvö kjördæmi

Guðjón Guðlaugsson:

Hjer er á ferðinni frv., sem er samkynja öðru frv., er áður hefir komið fyrir þingið, sem sje um skifting kjördæma.

Frv. var um skifting Ísafjarðarsýslu í tvö kjördæmi og var jeg flutningsmaður þess. Það gekk ágætlega vel og sætti engum mótmælum.

Jeg held, að rjettast væri að skifta öllum tvímenningskjördæmum í tvent. Íbúar tvímenningskjördæmanna hafa í rauninni tvöfaldan rjett við þá, sem í þeim kjördæmum búa, er hafa einn þingmann. Maður, sem í því kjördæmi er, fær aðeins að kjósa einn þm., en maður í tvímenningskjördæmi fær að kjósa tvo. Þetta eru tvö sýslufjelög, og væri því eðlilegast að hafa það einnig tvö kjördæmi. Vegna þess að Austursýslan er fjölmennari, getur hún, ef hún er samhent, altaf haft báða þingmennina. Þetta er fjarstætt þeim grundvelli, sem hlutfallskosningar hvíla á.

Það er heldur ekki svo, að með skiftingunni verði þm. skift milli tveggja atvinnuvega. Sá litli sjávarútvegur, sem er í sýslunum, er jafnt í þeim báðum, og landbúnaðurinn, sem er aðalatvinnuvegurinn, er ekki frekar í annari en hinni. Það kemur því ekki til mála, að önnur atvinnugreinin mundi kúga hina með skiftingunni.

Það mælir og með skiftingunni, að í hvorri sýslunni er kauptún, sem er rjett að standi jafnvel að vígi, og þótt Blönduós sje sem stendur stærri en Hvammstangi, þá er þó hinn síðarnefndi ef til vill á enn meira framfaraskeiði.

Hálfvelgjuástæður nefndarinnar get jeg ekki undirskrifað. Jeg er þar á öðru máli. Sýslunefndunum sem slíkum kemur þetta mál alls ekki við, og það vantar því ekkert sjerstaklega á undirbúning þessa máls, þótt umsögn frá þeim sje ekki fyrir hendi. Þeir, sem sækja þingmálafundina, hafa þar meiri tillögurjett. Þegar Ísafjarðarsýslu var skift, kom þetta atriði ekkert til greina. Mismunurinn á fólksfjölda sýslnanna er ennþá aumari ástæða. Það er bæði gegn rjettlæti og skynsemi að skifta kjördæmum eingöngu eftir höfðatölu. Það væri líka gersamlega óframkvæmanlegt. Hver þingmaður er ekki aðeins fulltrúi einstaklinganna, sem byggja kjördæmið í þann svipinn, heldur er hann og fulltrúi fyrir hjeraðið sjálft. Hann á ekki eingöngu að sjá fyrir högum einstaklinganna, heldur og framtíð hjeraðsins. Tillagan um það, að Vestmannaeyjar skyldu ekki vera sjerstakt kjördæmi var á rökum bygð, samkvæmt þeirri reglu að skifta kjördæmum eftir höfðatölu, því að þá voru eyjarnar ekki svo fjölmennar, en engum mun blandast nú hugur um, að eyjarnar þurfa að hafa sjerstakan þingmann, beinlínis legu sinnar og afstöðu vegna. Mismunur íbúatölunnar getur því ekki komið hjer til greina. Ef ætti að fara að hugsa um slíkt, þyrfti að taka fleiri kjördæmi til yfirvegunar.