17.03.1922
Neðri deild: 25. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 683 í B-deild Alþingistíðinda. (714)

34. mál, bæjarstjórn í Reykjavík

Frsm. minni hl. (Gunnar Sigurðsson):

Jeg hefi hvorki heyrt nje sjeð neina ástæðu gegn þessu frv. Og þar sem allir eru sammála um efni þess, hví þá ekki að láta það ganga fram? Sú mótbára hv. frsm. meiri hl. (J. Þ.), að nú sje þegar kosið í fastar nefndir, er einskis virði, því að oft þarf að kjósa lausanefndir, og þá kemur þetta að notum. Ekki er endurskoðunin væntanlega neitt veigameiri. Hún getur dregist lengur en gert er ráð fyrir, og þá þyrfti að taka þetta upp aftur á næsta þingi, og sje jeg ekki annað en að það væri óþarfur kostnaðarauki og tímatöf, því að nú er þó búið að prenta frv. og ræða það í nefnd.

Háttv. meiri hl. hefir gert mjer þann greiða að prenta brjef borgarstjóra í nál. sínu. Það brjef sýnir sem sje mjög vel, að þetta er flokksmál og komið til fyrir stífni meiri hl. í bæjarstjórn. En Alþingi á að vera hafið yfir slíkt. En annars vil jeg leyfa mjer að spyrja háttv. frsm. meiri hl. (J. Þ.), hvort hann mundi vera á móti þessu, ef það væri flutt að ósk Borgaraflokksins í bæjarstjórn.

Jeg vona, að háttv. deild líti ekki á annað en rjettlætið í þessu máli og felli dagskrána á þskj. 90, en samþykki frv.