28.03.1922
Efri deild: 31. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 690 í B-deild Alþingistíðinda. (728)

34. mál, bæjarstjórn í Reykjavík

Frsm. (Sigurjón Friðjónsson):

Allshn. leggur með því, að frv. þetta verði samþykt. Það fer í þá átt að tryggja rjett minni hluta bæjarstjórnar til íhlutunar um þau mál, sem nefndir eru kosnar til að fjalla um. Þetta telur nefndin rjett, enda er það í samræmi við stefnu Alþingis á seinni árum og hlutfallskosningar við nefndaskipun nú teknar upp í flestum kaupstöðum.

Bæjarstjórnin hjer hefir lagt á móti þessu frv. með skjali til allsherjarnefndar Nd. og færir til þá ástæðu, að bæjarstjórnin hafi í undirbúningi endurskoðun á tilskipuninni um bæjarstjórn Reykjavíkur í heild og hugsi sjer að leggja frv. til laga þar að lútandi fyrir næsta þing. En nefndinni virðist þetta engin fullgild ástæða til að tefja fyrir því, að frv. næði fram að ganga, þar sem allir eru, að því er virðist, sammála um það, að sanngjarnt sje og rjettmætt að innleiða hlutfallskosningar við nefndaskipun hjer í Reykjavík eins og annarsstaðar. Fleira þarf nefndin ekki að taka fram.