11.03.1922
Neðri deild: 20. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 692 í B-deild Alþingistíðinda. (734)

51. mál, skattur til sveitarsjóðs af lóðum og lendum í Húsavíkurhreppi

Flm. (Ingólfur Bjarnarson):

Þetta frv. er fram borið fyrir Húsavíkurhrepp, og efni þess — eins og hv. þdm. hafa sjeð — aðeins að fá heimild til þess að leggja ákveðinn skatt á lóðir og lendur í kauptúninu með ákveðnu hundraðsgjaldi af virðingu þeirra. Þetta hundraðsgjald má óhætt telja lágt, þ. e. frá og alt að 2%, eftir því hverskonar lóð eða land er um að ræða og eftir því hvað hreppsnefndin ákveður í hvert sinn.

Jeg tel óþarft að fjölyrða um frv. þetta að svo stöddu, því bæði hygg jeg, að það liggi mjög ljóst fyrir, og í öðru lagi var samskonar frv. fyrir síðasta Alþingi — sem sje um lóðarskatt á Akureyri — og var það samþykt hjer í hv. deild án nokkurra andmæla, og er þetta frv. því samhljóða. Aðeins bætt við lítilli viðaukagrein um skipun jarðeignanefndar fyrir hreppinn.

Jeg sje, að frv. því. er jeg mintist á, hefir verið vísað til fjhn. í fyrra, og geri því að till. minni, að þetta frv. fari þangað líka. Að öðru leyti sje jeg ekki neina ástæðu til að ræða frekar um það.