27.03.1922
Neðri deild: 33. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 692 í B-deild Alþingistíðinda. (737)

51. mál, skattur til sveitarsjóðs af lóðum og lendum í Húsavíkurhreppi

Frsm. (Jón Baldvinsson):

Frv. þetta, á þskj. 75, er komið fram að tilhlutun hreppsnefndarinnar í Húsavíkurhreppi. Hún hefir fundið til þess, sem víðar kemur nú fram, hve aukaútsvörin eru óvinsæl og óábyggilegur gjaldstofn. Ber eðlilega mest á þessu í kaupstöðum og kauptúnum, þar sem margt er efnalítilla manna. Í frv. er aftur á móti fundinn gjaldstofn, sem er ábyggilegur, það sem hann nær, enda hefir hann þegar verið lögfestur handa sumum bæjarfjelögum. Fyrir því taldi nefndin rjett að láta frv. ganga fram.

Brtt. hefir nefndin gert nokkrar, en ekki skerða þær aðalefni frv., heldur eru þær til þess að kveða skýrara á um nokkur atriði. Fyrsta brtt. er þó ofurlítil efnisbreyting. Hún miðar að því að lækka lágmark gjaldsins úr 5 kr. í 2 kr. Þykir nefndinni sem svo hátt lágmark gæti hæglega valdið misrjetti. Maður, sem hefði garðholu og fengi úr henni 1–2 tunnur af jarðeplum, yrði að greiða 5 kr. og annar, sem hefði talsvert stærra land, þyrfti ef til vill heldur ekki að greiða nema lágmarksgjald, þar sem hundraðsgjaldið er svo lágt. Aftur á móti þótti nefndinni 2 kr. vera hæfilegt lágmark.

Önnur brtt. ákveður skýrar, hver gjalda skuli lóðargjaldið. Nú stendur þarna svo á, að hreppurinn á alt það land, er kauptúnið stendur á, og raunar alt landið, sem hreppurinn nær yfir. Þó er lagt til, að svo sje ákveðið, að eigandi skuli greiða lóðargjaldið, ef það er einstakur maður eða fjelag. Því þó eigendur lóða og lendna í þessum hreppi sjeu ekki nú einstakir menn, getur svo farið að svo verði síðar. Sumar af grunnlóðum kauptúnsins munu seldar á leigu um mjög langan tíma og landspildur seldar á erfðafestu, og óvíst nema svo geti farið, að það komist að lokum í eigu einstaklinga. Svo hefir að minsta kosti farið um lönd hjer í Reykjavík, að þau hafa flest að lokum orðið kvaðalaus eign erfðafestuhafa. En að öðru leyti gerir brtt. ráð fyrir, að eigandi leigurjettindanna greiði lóðargjaldið. Telur nefndin það hentugra og ólíku brotaminna í innheimtu heldur en að þurfa að eltast við þá, sem framleigt væri og sem ef til vill yrði sinn í hvert skiftið.

Þá er smábreyting undir stafl. b, um að gjalddagi lóðargjalda sje sá sami og annara hreppsgjalda. Þó slíkt sje í raun og veru sjálfsagt, þá fanst þó nefndinni rjettara að taka það fram í frv.

3. brtt. er líka skýring. í frv. er svo ákveðið, að hreppsnefnd Húsavíkurhrepps skuli kjósa menn í jarðeignanefnd, en ekkert um það sagt, hvort þeir menn skuli kosnir innan hreppsnefndar eða ekki. Nefndin hefir fengið þær upplýsingar frá hreppsnefndinni, að hún vilji gjarna hafa heimild til þess að skipa þá menn í þessa nefnd, sem ekki eiga sæti í hreppsnefnd. Er þetta ákvæði því sett í frv. eftir ósk hreppsnefndarinnar.

Það mætti nú ef til vill segja, að óþarft væri að skipa þessa jarðeignanefnd, þar sem hreppsnefndin hefði getað látið úttektarmenn meta lóðirnar, svo sem gert er ráð fyrir í frv. um skattmat fasteigna, sem nú liggur fyrir þinginu. En úttektarmönnum þarf að greiða fyrir virðingar, en jarðeignanefndin mun starfa kauplaust; og er þetta því greinilegur sparnaður.

Jeg hefi svo ekki fleira að segja um þetta mál; hygg að allar brtt. nefndarinnar sjeu að minsta kosti að efni til í samræmi við vilja hreppsnefndar Húsavíkurhrepps og hv. flm. frv.