04.04.1922
Efri deild: 36. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 697 í B-deild Alþingistíðinda. (748)

51. mál, skattur til sveitarsjóðs af lóðum og lendum í Húsavíkurhreppi

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Jeg hefi ekki miklu að bæta við nál. á þskj. 185.

Nefndin er sammála um það, að nauðsynlegt sje að hafa fasta tekjustofna fyrir bæjar- og sveitarsjóði, svo eigi þurfi að taka allar tekjur þessara sjóða með aukaútsvörum. Í fyrra voru samþykt lög um breytingu á lögum um bæjarstjórn á Akureyri, er ákveða jafnhá gjöld af lendum og lóðum þar. Í tilefni af því var svo aftur samþykt þingsályktunartillaga um að skora á stjórnina að leggja fyrir Alþingi nú frumvarp um fasta tekjustofna fyrir bæjarsjóði, sveitarsjóði og sýslusjóði, en það hefir nú ekki komist í framkvæmd enn. Og þar sem það getur dregist, að stjórnin leggi slíkt frumvarp fyrir þingið, virðist eigi ósanngjarnt, að þau sveitarfjelög, sem þess óska, fái sjerstök lög fyrir sig til að nota fasta tekjustofna, því að allir þeir, sem þekkja aukaútsvörin, vita vel, að þau eru sjaldnast svo rjett lögð á, að eigi sje heppilegra að hafa fasta tekjustofna fyrir sveitarsjóði, svo að eigi þurfi að leggja á öll gjöld til þeirra með aukaútsvörum.

Jeg legg því til, fyrir nefndarinnar hönd, að frv. þetta verði samþykt.