22.03.1922
Neðri deild: 29. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 61 í B-deild Alþingistíðinda. (78)

1. mál, fjárlög 1923

Magnús Guðmundsson:

Jeg ætla ekki að tala langt mál, en það, sem jeg aðallega vildi minnast á, var tóbakstollurinn. Háttv. nefnd hefir þótt hann of hátt áætlaður, og er það álitamál. Hygg jeg ekki að svo sje. Byggi jeg það álit mitt á því að á þessu ári verður lítill innflutningur vegna birgða frá f. á., og er því ástæða til að ætla, að mikið verði flutt inn á árinu 1923. Í ár flytur Landsverslunin lítið inn. af því hún veit hve miklar birgðirnar eru og kemur hjer fram einn kosturinn við tóbakseinkasöluna, sá að við hana sparast erlendur gjaldeyrir. Jeg tek þetta fram, ekki til þess að leggjast á móti áætlun hv. nefndar. heldur mjer til rjettlætingar.

Lækkunina á vörutollinum tel jeg rjettmæta, en ekki eingöngu af sömu ástæðum og háttv. frsm. (B.J.), heldur af því, að kolatollurinn fellur niður um næstu áramót, en því hafði jeg ekki gert ráð fyrir í áætlun minni.

Viðvíkjandi síma- og pósttekjum hefi jeg fylgt sömu reglum og áður hefir verið fylgt, og held jeg að varlegra sje að láta þar sitja við stjórnarfrv. Landssímastjórinn hefir sagt mjer, að nauðsynlegt sje að lækka símagjöld innanlands, en mundi mega hækka þau til útlanda. Er óvíst hvort sú ráðstöfun verður til að auka eða minka tekjurnar.

Hæstv. fjármálaráðherra (Magn.J.) taldi tekjuskattinn mjög óvissan. en hann varð hærri en hjer er áætlað bæði árið 1920 og 1921, og geri jeg mjer miklar vonir um, að hann verði einnig nú töluvert hærri en áætlunin.

Í gamla tekjuskattinum var sáralítill skattur af eignum, en eignaskatturinn nýi hlýtur að gefa þó nokkuð meira. Og eftir því, sem jeg hefi fengið að vita um framkvæmd laganna hjer í Reykjavík og um væntanlega ákvörðun skattsins þar, þá er mjer óhætt að segja, að alls engin ástæða er til að ætla, að skatturinn nái ekki áætlun þetta ár. Í fjárlögum þessa árs er hann áætlaður 700 þús. kr., og ef nú verður slíkt góðæri til lands og sjávar, sem háttv. þm. Dala. (B.J.) spáði, þá ætti skatturinn að ná 800 þús. kr. næsta ár, að minsta kosti.

Hv. frsm. (B.J.) kom með heilmikinn útreikning um lækkun gjaldanna. Þann útreikning get jeg ekki vefengt og ekki samþykt heldur, þótt jeg heyri hann lesinn upp. Þetta er talsvert verk og ekki gert á einu augabragði. Hann reiknaði nákvæmlega út, hvað væru lækkanir vegna minkandi dýrtíðar og hvað af öðrum orsökum. Jeg er nú ekki viss um, að slíkt verði reiknað út upp á hár. Og vafasamt tel jeg það líka hjá honum að halda því fram, að nefndin sje miklu sparsamari en fyrverandi stjórn. Það geta komið alvarlegar gloppur í þennan reikning hans allan. Jeg vil aðeins nefna barnafræðsluna. Þar leggur nefndin til að „spara“ 250 þús. kr. En nú stendur svo á, að sú upphæð, sem í frv. er, er lögbundin. Háttv. fjárveitinganefnd hefir að vísu gert tilraun til þess að fá þessu breytt, en mjög er óvíst, hvernig um það fer. Og ef það verður ekki samþykt, þá er orðinn halli á frv. eftir meðferð nefndarinnar. Vafasamt er því hjá nefndinni að reikna með þessu. Þegar öllu er á botninn hvolft, held jeg því, að nefndin hafi frekar gengið skemra en lengra en stjórnin hafði gert. Þetta segi jeg ekki sem hnútu til háttv. nefndar, heldur vegna þess, að mjer virtist nefndin vilja láta líta svo út, sem hún skilaði frv. í betra ástandi en stjórnin lagði það fyrir.