24.03.1922
Neðri deild: 31. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 704 í B-deild Alþingistíðinda. (784)

69. mál, skemmtanaskattur

Flm. (Jón Þorláksson):

Jeg vona, að háttv. þdm. hafi kynt sjer greinargerðina yfir frv. þetta, enda þarf ekki mikils við, því þetta er næsta óbrotið mál. — Eins og mönnum er kunnugt, hefir bæjarstjórinn í Reykjavík sett hjer reglugerð um skemtanaskatt 19. nóv. 1918, og í henni eru skattskyldaðar meðal annars íþróttasýningar og kappleikar, án þess þó að nokkuð frekar sje kveðið á um þau efni. Aðeins er það tekið fram í reglugerðinni, að þær skemtanir, og þá um leið kappleikar, sem stofnað er til í styrktarskyni við eitthvert líknarstarf eða til almenningsheilla, skuli undanþegnar skattinum. Nú líta íþróttamenn hjer í bænum svo á, að samkvæmt þessari reglugerð sjeu kappleikar þeir og íþróttasýningar, sem áhugamenn einir taka þátt í, ekki skattskyld, en meiri hluti bæjarstjórnar mælir í mót og heimtar skattinn. Er þetta frv. fram borið til þess að skera úr þessari þrætu, og er því einungis skýring á lögunum um skemtanaskatt.

Til þess að komast að rjettri niðurstöðu í þessu máli, þá hefi jeg farið í gegnum allar umr. um það árið 1917, þegar skemtanaskatturinn var í lög leiddur.

Það var þá beinlínis tekið fram af háttv. frsm., að ekki væri ætlast til að skattur verði lagður á listasýningar eða annað sem gert er í fræðsluskyni. Umræðurnar bera það með sjer, að engum þm. hefir komið til hugar, að lagður yrði skattur á íþróttir.

Jeg held því, að þessi skýring eða viðauki sje ótvírætt í fullu samræmi við anda laganna. Jeg skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta, heldur láta mjer nægja að skírskota til greinargerðarinnar um hversu íþróttamönnum er nauðsynlegt að fá fje til að halda uppi íþróttaiðkunum.

Hjer í Reykjavík er einskonar íþróttamiðstöð landsins, hingað sækja menn að alstaðar af landinu til að sjá og iðka íþróttir. Þessi skattur gæti því orðið til hindrunar að menn kæmu utan af landinu í þessum tilgangi, og yrði þá til hnekkis íþróttunum, ekki einungis hjer í Reykjavík, heldur og um land alt.