08.04.1922
Efri deild: 40. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 707 í B-deild Alþingistíðinda. (795)

69. mál, skemmtanaskattur

Frsm. (Sigurður Hjörleifsson Kvaran):

Um þetta mál hefi jeg ekkert verulegt að segja annað en það, sem í nefndarálitinu stendur. Nefndin er frv. fylgjandi, því að með því er tekinn af allur vafi um það atriði, sem frv. ræðir um. Jeg vil svo aðeins bæta við nokkrum athugasemdum og beina til hæstv. stjórnar.

Það, sem vakir fyrir nefndinni, er, að ekki verði lagður skemtanaskattur á það, sem miðar til sannrar mentunar og menningar innan þjóðfjelagsins. Nefndin gerir ráð fyrir því, að á næstu árum muni fleiri bæjar- eða sveitarfjelög taka sjer Reykjavík og Ísafjörð til fyrirmyndar hvað þetta mál snertir og setja líka reglugerð um skemtanaskatt hjá sjer. En það geta áreiðanlega orðið þungir og erfiðir fjötrar á menningu landsins. Ekkert er jafnvel meiri lífgjafi menningarinnar úti um land en góðir og fræðandi fyrirlestrar, sem vekja áhuga og glæða nýjar hugsjónir hjá mönnum.

Nefndin telur því háskalegt að leggja skatt á slíkt.

Aðallega á skatturinn að vera til þess að afla sveitarsjóðum tekna af þeim skemtunum, sem lítilsvirði eru, en þó útgjöld fyrir þjóðfjelagið. Það er því ósk nefndarinnar, að stjórnin staðfesti varlega slíkar reglugerðir.