22.03.1922
Neðri deild: 29. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 63 í B-deild Alþingistíðinda. (80)

1. mál, fjárlög 1923

Magnús Guðmundsson:

Ef háttv. frsm. (B.J.) vill lána mjer útreikning sinn milli umr., þá mundi jeg gjarna vilja athuga hann dálítið. Til þess þarf kunnugleika, sem jeg leyfi mjer að efast um, að skrifari háttv. nefndar hafi enda þótt mjer detti ekki í hug að efast um samviskusemi hans. Má t. d. benda á það að í fjárlögum fyrir þetta ár er prentvilla sem munar 100 þús. krónum.

Háttv. frsm. (B.J.) kvað nefndina hafa viljað skila frv. tekjuhallalausu. en stjórnina ekki. Um vilja fyrv. stjórnar í þessu máli getur hann nú varla sagt; en stjórnin gat ekki bygt á því, að lögákveðnar greiðslur fjellu niður. Þingnefnd getur lagt til, að áætla aðeins 100 þús. kr. til barnafræðslu, enda þótt lög heimti 350 þús. kr., þegar hún leggur um leið til, að lögin falli niður um sinn. Sá munur einn fyllir hallann, sem var á frv. stjórnarinnar, og meira til. Nefndin má byggja á þessum till. sínum ef hún vill en stjórnin verður að miða við gildandi lög þegar hún gerir frv. sitt. Ef hún væri ekki bundin við þau, þá væri ekki mikill vandi að láta frv. vera tekjuhallalaust.