29.03.1922
Neðri deild: 35. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 709 í B-deild Alþingistíðinda. (801)

71. mál, kennsla heyrnar og málleysingja

Frsm. (Gunnar Sigurðsson):

Frv. það, sem hjer liggur fyrir, er breyting á eldri löggjöf um þetta efni, þ. e. tilskipun frá 26. febr. 1872. Sú tilskipun er mjög skýr og greinileg, eins og mörg lög frá þeim tíma.

Ráðunautar þeir, sem stjórnin hafði sjer til aðstoðar við endurskoðun fræðslukerfisins, höfðu samið frv. um þetta efni, sem prentað er í IV. hefti af áliti þeirra. Þeir bygðu það að efni til á áðurnefndri tilskipun. Aðalbreytingin er sú, að lengdur er skólatíminn. Hann var frá 10–14 ára, en á að verða frá 8–17 ára. Mentamálanefnd hefir nú fallist á þetta. Hefir hún átt tal um það við forstöðukonu skólans. Leggur hún mikla áherslu á, að börnin komi svo ung, sjerstaklega með tilliti til þess, að þá verði hægara að kenna börnunum að tala varamál og lesa mál af vörum annara.

Nefndin hefir stytt allmjög frv. ráðunautanna. Hefir hún slept úr frv. öllu því, sem hún telur vera reglugerðarákvæði. Nefndin hefir fylgt þeirri sjálfsögðu reglu að hafa lögin sem styst og skýrust og greina vel á milli þess, sem standa á í lögum, og þess, sem standa á í reglugerðum.

Um kostnaðarhliðina við þetta frv. skal þess getið, að þar sem sömu meginreglu er fylgt og í tilsk. frá 1872, þá verður kostnaðaraukinn aðeins sem svarar því, sem námstíminn er lengdur. Jeg vona því, að háttv. deild horfi ekki í þann smávægilega kostnaðarauka, sem af frv. leiðir, þegar um það er að ræða að bæta hag og auka andlegan þroska þessara olnbogabarna, þessara píslarvotta gæfunnar, sem hjer er um að ræða.