03.04.1922
Neðri deild: 39. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 710 í B-deild Alþingistíðinda. (807)

71. mál, kennsla heyrnar og málleysingja

Frsm. (Gunnar Sigurðsson):

Jeg vil skýra nokkru nánar fyrirspurn frá háttv. 1. þm. Skagf. (M. G.), hvort ekki yrði aukinn kostnaður, ef frv. yrði samþykt. Jeg skal taka það fram, viðvíkjandi aldurstakmarkinu, að jeg hefi átt tal við forstöðukonu skólans um þetta, og telur hún, að ekki þurfi að stækka skólann þess vegna fyrst um sinn nje heldur að auka við kenslukrafta, þar eð nú sjeu aðeins 6 börn í skólanum, en hafi oft verið 14. En auðvitað liggur það við borð, að stækka verði skólann, en það þarf engu frekar þótt frv. þetta verði samþykt, því að þar er aðeins heimilað að setja reglugerð, sem ákveði svo, að blind og vitsljó börn skuli tekin líka. Það er því engin skylda að setja þetta strax á stofn. Annars vil jeg geta þess, að landið á rúmgóða lóð, þar sem skólinn stendur nú, svo að sjálfsagt er að auka við skólann þar. Vona jeg að háttv. deild samþykki frv. þetta, þar eð um engan kostnaðarauka er strax að ræða.