03.04.1922
Neðri deild: 39. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 712 í B-deild Alþingistíðinda. (812)

71. mál, kennsla heyrnar og málleysingja

Jón Þorláksson:

Jeg vona, að hv. deild hafi skilið, að það er tvent, sem farið er fram á í frv. þessu. Hið fyrra er það, að þessi daufdumbu börn sjeu tekin yngri en þau hafa verið tekin hingað til. Verður sennilega um aukningu á barnafjöldanum að ræða sökum þessa, þegar fram í sækir, en tíminn er einmitt heppilegur nú, vegna þess hve fá börn eru nú í skólanum sem stendur.

Því miður var ekki búið að vinna að fullu úr manntalinu 1920, en eftir því, sem næst verður komist, munu vera um 14 daufdumb börn á öllu landinu á aldrinum 8–17 ára en börnum á þeim aldri er ætlast til, að skólinn veiti móttöku.

Nú hafa flest verið 16 nemendur í skólanum, svo að nefndinni fanst, að með þessu mundu þó eigi fleiri sækja um skólann en hægt væri að veita móttöku, því þess er og að gæta, að altaf slitrast einhverjir frá.

Annað atriðið er það, að með þessu frv. er stjórnarráðinu heimilað að halda uppi kenslu einnig fyrir önnur börn, heyrnarsljó, málhölt og blind, en það er ekki tilætlun nefndarinnar, að sú heimild verði notuð fyr en fje er veitt til þessa.