13.03.1922
Neðri deild: 21. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 715 í B-deild Alþingistíðinda. (828)

55. mál, sætýndir menn

Flm. (Pjetur Ottesen):

Þetta frv. er komið fram vegna þess, að í íslenska löggjöf vantar ákvæði um, hver sje lögfull sönnun fyrir dauða sætýndra manna. Um þetta eru þó til ákvæði hjá nágrannaþjóðum vorum, og getur þessi vöntun oft verið oss mjög bagaleg. Svo er sem sje mál með vexti, að erlend lífsábyrgðarfjelög hafa neitað að greiða ábyrgðarfje þó nokkurra manna, vegna þess, að þessar sannanir hefir vantað. Á það einkum við þegar skip hafa farist með allri áhöfn. Þegar einhverjir hafa komist af, þá er hægt að sanna þetta á venjulegan hátt með vitnaleiðslum. Jeg skal aðeins nefna eitt dæmi. Fyrir nokkrum árum fór bátur með tveimur mönnum hjeðan úr Reykjavík og ætlaði suður í Voga. Hann fjekk ofviðri og kom aldrei fram. Annar þessi maður var líftrygður í erlendu vátryggingarfjelagi, en það neitaði að greiða fjeð. Hjer var þó ekki um að villast, að maðurinn var dáinn.

Úr þessu er frv. ætlað að bæta, svo að menn geti náð rjetti sínum, þegar líkt stendur á. Frv. setur að vísu nokkuð þröng ákvæði um þetta. Hygg jeg það rjettara, þar sem um er að ræða að sækja undir högg erlendra lífsábyrgðarfjelaga.

Jeg vona að háttv. deild taki þessu frv. vel. Óska jeg þess, að því verði vísað til háttv. allshn. að lokinni þessari umr. En það eru tilmæli mín til háttv. nefndar, að hún hraði málinu.