01.04.1922
Neðri deild: 38. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 716 í B-deild Alþingistíðinda. (832)

55. mál, sætýndir menn

Frsm. (Gunnar Sigurðsson):

Allsherjarnefnd er sammála flm. þessa frv. um það, að nauðsyn beri til að bæta úr þeim vandkvæðum, sem eru á að sanna dauða sætýndra manna, en hún leggur ennfremur það til, að þessi lög nái og til þeirra manna, sem farast voveiflega á landi og finnast ekki. Sem dæmi þess má nefna, að maður varð úti í vetur á Reykjanessfjallgarði og hefir ekki fundist. Svo má og nefna Reynistaðarbræður, og eru mörg önnur slík dæmi alkunn.

Nefndinni er nú ljóst, að hjer verður að fara með mestu varkárni, vegna þeirra, sem eftir lifa; eru því sumar greinar frv. beinlínis til að tryggja þetta, t. d. 8. gr.

Nefndin hefir allmikið umhverft frv. að formi til, og er hún háttv. flm. þakklát, að hann hefir tekið því öllu vel og engar athugasemdir gert þar að lútandi, enda vakti ekki annað fyrir nefndinni en það, að samræma efni þessa frv. við önnur lög, t. d. siglingalögin o. fl.

Í þessu máli tók nefndin sjer lögfræðing til aðstoðar.

Allir þeir, sem skipa allsherjarnefnd nú, eru sammála um það, að frv. þau, sem ganga í gegnum þessa nefnd, verði að vera gallalaus að formi til, og telja það fráleitt, að frv., eins og stundum hefir komið fyrir, hafa verið afgreidd frá þessari nefnd, sem hafa brotið í bága við önnur gildandi lög. Þess vegna teljum við rjett, ef um flókna lagasmíði er að ræða, að kalla til aðstoðar lögfræðing, sem hefir gert lögin að æfistarfi sínu. Því væri æskilegt, að nefndin nyti t. d. aðstoðar einhvers prófessorsins í lögum eða hæstarjettardómara, enda viðgengst það víðast erlendis, að þingin hafa samvinnu við slíka sjerfræðinga, t. d. parlamentið enska.

Það hefir stundum komið fyrir hjer, að allir þeir, sem skipuðu allsherjarnefnd, voru ólögfróðir, og þó að einhver þeirra hafi verið lögfróður, hafa það ekki verið menn, sem hafa gert lögfræðina að æfistarfi sínu, og er því ofætlun að halda, að þeir með öðrum störfum geti annað því, sjerstaklega vegna þess kerfisleysis í löggjöfinni, sem alstaðar verður fyrir og fyrst þarf að bæta úr. Og jeg tel, að það hljóti að verða eitt af framtíðaráhugamálum þings og þjóðar að setja í fast kerfi alla löggjöf vora og fækka um leið þeim lögum, sem í gildi eru og fáir eða engir fara eftir.