22.03.1922
Neðri deild: 29. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í B-deild Alþingistíðinda. (84)

1. mál, fjárlög 1923

Forsætisráðherra (S.E.):

Jeg hefi ekki ástæðu til að deila á háttv. fjvn. út af þeim kafla, sem hjer liggur fyrir. Jeg vil yfirleitt styðja hana í sparnaðarviðleitni hennar. Jeg er þakklátur meiri hl. nefndarinnar fyrir það, að hann vill láta fjárveitinguna til sendiherrans standa óbreytta frá því sem er í frv. stjórnarinnar. Jeg hefi oft áður lýst afstöðu minni til þessa embættis en get þó tekið það fram enn að jeg álít það eitt af nauðsynlegustu embættum þessarar þjóðar. Jeg vil gjarna halda þeim manni sem nú er í embættinu. Hann hefir marga og góða hæfileika til að gegna því, og er auk þess nú búinn að fá reynslu í þessum efnum, en hún er mikils virði. Ein af ástæðunum sem færðar voru fram móti þessu embætti var sú, að það væri tildur. En þetta er mesti misskilningur. Það er langt frá að maður sá er nú gegnir embættinu, hafi farið með nokkru tildri. Jeg lagði áherslu á það þegar í upphafi, að hann hefði þennan titil: Það veitir honum greiðari aðgang að áhrifamönnum erlendis, en það er mikilsvert. Ef brtt. minni hl. verður samþykt, þá er það sama og sendiherrann verði að skila embættinu af sjer. Hann er ekki svo auðugur, að hann hafi efni á því að leggja fram fje frá sjálfum sjer til þess að halda stöðunni. En annars skal jeg ekki fara frekar inn á þetta mál, fyr en jeg heyri álit minni hl. Jeg vænti þess, að háttv. deild geri launin ekki minni en þau eru ákveðin í stjórnarfrv. Jeg álít, að það sje aldrei meiri þörf en nú að halda sendiherranum.

Þá er annar liður, kostnaðurinn við sambandslaganefndina. Jeg hefi skilið nál, fjvn. svo, og einnig skilist það á umræðum, sem farið hafa fram milli fyrv. stjórnar og nefndarinnar, að svo væri litið á, sem þóknun nefndarmannanna væri bygð á samningi milli þeirra og stjórnarinnar. Jeg skal nú ekki segja, hvort þessi skilningur er rjettur, en ef svo er, þá hefi jeg áður látið það í ljósi, að það er ekki gott að rifta samningi, sem stjórnin gerir. Jeg hefi ætlað að tala um þetta við fyrv. forsrh. og fá að vita, hvað hann teldi rjett í þessu, en jeg náði ekki tali af honum í dag, en mun gera það hið bráðasta.

Þá er brtt. um það að hækka skrifstofukostnað sýslumanna. Hún er auðvitað mjög nærgöngul við sýslumennina, því allmikið hefir skrifstofukostnaður verið sparaður við þá.

Þá er brtt. við 12. gr., um styrk til augnlæknis. Um það skal jeg ekki deila. — Þá kemur brtt. við 12. gr. 13 a., um það, að orðin „ekki yfir” falli burtu. Afleiðingin af því verður sú, að upphæðin, sem nefnd er í greininni, verður áætlunarupphæð, en ekki föst upphæð. Mjer hafa, síðan jeg tók við, borist umkvartanir um það að fyrv. stjórn hafi skilið athugasemdina sem um fasta upphæð væri að ræða. En ef þessi sanngjarna till. nefndarinnar verður samþykt, þá býst jeg við, að stjórnin taki þessar umkvartanir til greina.

Þá er hækkun styrksins til hjúkrunarfjelagsins „Líknar“. Ekkert hefi jeg við það að athuga. Fjelag þetta hefir sýnt lofsverðan áhuga og dugnað í starfsemi sinni. Um b-lið þeirrar till. skal jeg ekkert segja; jeg þekki stúlkuna, sem styrkinn á að fá ekki neitt.

Þá held jeg að það sje ekki fleira sem jeg þarf að athuga við þennan kafla; yfirleitt er jeg samþykkur öllum brtt. fjvn. við hann.