22.03.1922
Neðri deild: 29. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 74 í B-deild Alþingistíðinda. (85)

1. mál, fjárlög 1923

Atvinnumálaráðherra (Kl.J.):

Stærstu brtt. háttv. fjvn. falla á 13. gr. fjárlagafrv., samgöngumálin. Fjvn. hefir, eins og hún segir sjálf gripið til þess örþrifaráðs að leggja til að engir símar verði lagðir á árinu. Það kynni nú að sýnast svo, að hjer væri hart að gengið við mig eða stjórnina, en svo er þó ekki. Þessi stjórn vill sýna það, að henni er alvara með að spara. En það er ekki nóg að bera sparnaðinn á vörunum; það verður líka að sýna hann í verkinu, svo um munar. Hjer er þó um verulegan sparnað að ræða þar sem farið er fram á að spara 154 þús. kr. Þetta kom til tals milli mín og nefndarinnar, og jeg fjelst á það, að nauðsynlegt væri, eins og nú standa sakir, að láta símalagningarnar bíða að sinni. Jeg álít að til sjeu símar, sem ekki eru bráðnauðsynlegir. Þeir símar, sem eftir er að leggja, eru í útkjálkahjeruðum og þeir eru þar að vísu nauðsynlegir, en þeir borga sig ekki eins vel og þar, sem þjettbýlt er, Jeg hefi átt tal um þetta við landssímastjóra og hann hefir sagt mjer, að þeir símar, sem eftir er að leggja, muni ekki bera sig. Frá því sjónarmiði álít jeg, að það sje ekki varhugavert þótt símalagningu sje frestað í 1–2 ár.

Að því er snertir D. III. 3. skal jeg geta þess, að jeg er ekki viss um, að það sje heppilegt, að stór loftskeytastöð sje reist á Síðu. Frá því fyrsta að farið var að leggja síma hjer á landi var það meining stjórnarinnar, að símasamband kæmist á við Austurland eftir suðurströndinni, svo að sambandið við útlönd yrði altaf áreiðanlegt en það væri orðið tvöfalt. Ef loftskeytastöð yrði nú reist á Síðu, þá hygg jeg að lítið yrði úr símalagningu austur, eða bið gæti orðið á henni. En það tel jeg ver farið, enda hygg jeg að íbúar Skaftafellssýslu kysu heldur símasamband en loftskeytasamband.

Það var talað um það í nefndinni hvort ekki mætti fara þá leið að lofa símunum að standa í fjárlögunum, en veita stjórninni heimild til að fella þá burt, ef hún sæi sjer ekki fært að leggja þá. En það ráð hefir nú ekki verið tekið, enda er það heppilegra. því að þegar símarnir standa í fjárlögunum gefur það von um að fá þá.

Háttv. frsm. (B.J.) gat þess, að heldur mætti leggja niður vegagerð en símalagningu. En þar er jeg honum ekki sammála. Því að jeg álít, að þó enginn sími sje alveg ónauðsynlegur, þá sjeu þó sumir lítt nauðsynlegir; en jeg þekki engan veg hjer á þessu landi, sem ekki er nauðsynlegur. Jeg skal játa, að það er hart fyrir íbúa hjeraða, sem lengi eru búnir að bíða eftir uppfyllingu loforðs um símalagningu að verða sviftir von um það í svipinn, og þess vegna hefði kannske verið ástæða til þess að lofa fyrsta símanum í D. III. að standa. En það má ekki láta það bitna á vegunum, því að þeir eru allir nauðsynlegir. Jeg hefi átt tal um það við vegamálastjóra, hvort gerlegt væri að leggja niður allar fjárveitingar til vegagerðar á þessu ári, en hann var því mjög mótfallinn. En hann gat þess, að vegirnir væru mismunandi nauðsynlegir. Hvað snertir flutningabrautir, þá gat hann gengið inn á, að til mála gæti komið að fresta Húnvetningabraut, Skagfirðingabraut, Hvammstangabraut og Flóabraut, en alls ekki Biskupstungnabraut. Nú endi hún í foraði, og yfir það verði að komast. En ef til vill mætti lækka fjárveitinguna til hennar úr 25 þúsund niður í 20 þús. kr. En það er langt frá því að hann eða jeg mæli með þessari frestun. Jeg vil líka benda á það, að ef þessum brautum er frestað, þá þarf að hækka að mun 5. liðinn, um viðhald flutningabrauta, því að sú skylda hvílir á ríkissjóði að halda við vegunum meðan ekki er búið að afhenda þá sýslufjelögunum, og ekki er hægt að afhenda þá fyr en þeir eru fullgerðir. Þess vegna vil jeg beina því til fjvn. að ef það verður ofan á að minni hl. fái vilja sínum framgengt. Þá verður að hækka viðhaldsliðinn talsvert mikið.

Þá er það Holtavegurinn. Vegamálastjóri hefir sagt, að það sje áhjákvæmilegt, að við hann sje gert þegar í stað; það nái engri átt að skilja við hann í því ástandi sem hann er nú í, og jeg veit, að þeir háttv. þm., sem til þekkja, munu kannast við, að þetta eru ekki neinar öfgar. Í stuttu máli, við viljum alls ekki láta fella niður tillögin til Holta- og Biskupstungnavegarins, og auk þess, ef hin tillögin verða niður feld, láta hækka liðinn til viðhalds vega að miklum mun.

Af þjóðvegunum er Stykkishólmsvegurinn sá, sem síst má bíða. Hann endar í ófærum flóa, eins og Biskupstungnabrautin. Vegamálastjórinn telur því mikla nauðsyn að halda honum áfram, og vil jeg biðja hv. deild að taka það til greina.

Í þessu sambandi vil jeg benda á það, að nokkurt ósamræmi er í till. minni hl. þessarar háttv. nefndar. Þessi háttv. minni hl. hefir lagt það til að fella niður fjárveitingu til flutningabrauta og þjóðvega, en lætur styrkinn til sýsluvega standa óhaggaðan.

Jeg verð að segja það, að jeg sje enga ástæðu til að hætta við aðalvegina,en styrkja angana út frá þeim. Þessi till. ætti því að sjálfsögðu einnig að ná til akfærra sýsluvega.

Annars er mjer kunnugt um það, að talsverð eftirspurn er eftir þessum styrk, og sýslurnar vilja hlíta öllum þeim skilyrðum, sem sett hafa verið um veitingu hans. Nú hafa komið fram nægilega margar umsóknir til þess að notað verði alt það fje, sem lagt er til að veita. Það er síður en svo að jeg sje því mótfallinn, að þessi upphæð verði veitt; en vildi aðeins benda á þetta ósamræmi.

Háttv. þm. Mýra. (P.Þ.) hefir komið fram með brtt. um að hækka tillagið til akfærra sýsluvega. Jeg hefi í rauninni ekkert við það að athuga, en tel óhugsandi, að hún verði samþykt, ef feldur verður styrkurinn til flutningabrauta.

Jeg vil enn geta þess, að vegamálastjóri hefir tjáð mjer, að það sje mjög mikil eftirspurn eftir vegavinnu á vorin til sveita, og telur hann víst, að tilfinnanlegur atvinnubrestur mundi verða, ef þessi vorvinna legðist alveg niður. Leggur hann því eindregið til, að eitthvað sje veitt á hverjum stað til undirbúningsvinnu á vorin.

Jeg skal því taka það fram um þessa liði (vegagerðir), að jeg teldi rjettast, að þeir stæðu óbreyttir, en stjórninni væri heimilað að minka framlögin, ef og eftir því sem þurfa þætti. Mætti athuga þetta til 3. umr., og skal jeg fúslega, annaðhvort einn eða í samráði við minni hl. nefndarinnar, koma með brtt. í þá átt.

Um C-liðinn er ekkert að segja nú, því álit samgöngumálanefndar er ekki komið ennþá. Aftur á móti hefir komið fram brtt. frá háttv. 1. þm. Eyf. (St.St.) um styrk til að halda uppi Grímseyjarferðum. Jeg tel víst, að þessi styrkur verði veittur, með tilliti til þess, hversu erfitt það er fyrir Grímseyinga, svo fáir sem þeir eru, að halda uppi landferðum; auk þess ber að líta á að þeir eru læknislausir. Það skiftir því litlu máli, hvort þessi brtt. háttv. þm. Eyf. (St.St.) verður samþykt eða ekki, því jeg tel víst að Grímseyingum verði engu að síður veittur styrkur af þessu fje, þótt hans sje ekki getið sjerstaklega.

Um vitamálin skal jeg vera stuttorður. Það hafa komið fram 2 brtt. um að veita 4000 kr. til þess að reisa vita í Hvanney, en þá upphæð á að klípa af fjárframlaginu til sjómerkja (4. lið), þannig, að hann er færður niður úr 10000 kr. í 6000 kr., svo að allur liðurinn er óbreyttur. Jeg sje nú ekki, að þessi viti sje nauðsynlegri en aðrir vitar, sem slept hefir verið, en finn heldur ekki ástæðu til að amast við honum.

Að öðru leyti skal jeg geta þess, að þessi liður er áætlaður 117000 kr., en vitagjaldið er 150000 kr. Þannig gengur nokkur hluti af vitagjaldinu sem eyðslueyrir í landssjóð. Það var nú ekki tilætlunin í upphafi, að það gengi til annars en vita og sjómerkja. Aftur á móti má líta á það, að landssjóður hefir áður fyr opt goldið meira til stofnunar vita og sjómerkja en nam vitagjaldinu, en það getur jafnað sig í þetta sinn. En sú regla ætti að gilda, að vitagjald yrði ekki eyðslufje landssjóðs.