13.03.1922
Efri deild: 19. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 722 í B-deild Alþingistíðinda. (851)

57. mál, sveitarstjórnarlög

Atvinnumálaráðherra (Kl. J.):

Jeg skil það vel, að sveitarfjelögin þurfi á öllum þeim tekjum að halda, sem þau eiga heimtingu á, og það er eðlilegt, að þau reyni að ná gjöldum af öllum þeim, sem atvinnu reka í hreppunum. En þeirrar tilhneigingar hefir orðið vart, og hún hefir aukist svo að segja ár frá ári, að færa stöðugt niður þann tíma, sem þyrfti til að gera atvinnugreinar útsvarsskyldar. Fyrst var þetta bundið við 4 mánuði, en nú er það komið niður í 3 mánuði eða jafnvel 4 vikur á sumum sviðum. Þetta getur gengið of langt og er full ástæða til þess að athuga allar slíkar breytingar gaumgæfilega, því að ekki stendur á till. til breytinga á þessu sviði. Jeg held, að engin grein sveitarstjórnarlaganna hafi orðið fyrir fleiri breytingatilraunum en 36. gr., og það má búast við, að ekki sje öllu lokið enn í því máli. Það getur gengið svo langt, að farið sje að taka útsvör af mönnum, sem reka t. d. hrossasölu, þó að þeir dvelji ekki lengur í hreppnum en 1 eða 2 daga. Jeg vildi aðeins benda á þessa viðsjárverðu tilhneigingu.

Ástæðan til þessa frumvarps mun vera sú, að ná útsvari af laxveiðum, sem reknar eru skemmri eða lengri tíma. Jeg er því fullkomlega samþykkur, að sveitirnar fái gjöld af þessari atvinnugrein, því að atvinnugrein verður það að teljast, þó að laxveiði sje oft rekin fyrir skemtunar sakir. Það er ekki sanngjarnt að sveitirnar missi af útsvari af þessari atvinnugrein fremur en hverri annari. En jeg kann ekki við það, sem borið er fram í greinargerð frv., að það sje til þess að leiðrjetta misskilning á framkvæmd laganna. Ef hjer er átt við dóm, sem gengið hefir í þessu máli, þá er ekki rjett að kalla það misskilning á framkvæmd laganna, heldur er hjer um að ræða úrskurð dómsvaldsins um, hvað sjeu lög.

Háttv. 2. þm. S.-M. (S. H. K.) mintist á, að endurskoða þyrfti öll sveitarstjórnarlögin. Það er rjett, að raddir hafa heyrst um þetta efni, og hafa þær orðið allháværar, þó að lögin sjeu ekki eldri en 17 ára og mikið hafi verið til þeirra vandað í upphafi. Það er víst, að lögunum þarf að breyta, en hinsvegar get jeg ekki fallist á þær kröfur, að færa tímann til útsvarsskyldu stöðugt niður.