22.03.1922
Neðri deild: 29. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 78 í B-deild Alþingistíðinda. (86)

1. mál, fjárlög 1923

Fjármálaráðherra (Magn.J.):

Um þær greinar, sem nú eru til umr., sje jeg ekki ástæðu til að fjölyrða. En meðal þeirra er þó ein af þýðingarmestu greinum fjárlaganna, sem sje 7. gr.; en hún er þess eðlis að henni verður ekki með orðum skipað.

En þó vildi jeg gera örlitla athugasemd viðvíkjandi því, hvernig hún skiftist í innlendar og útlendar skuldbindingar. Þegar það er athugað, lætur nærri, að af öllum þeim skuldbindingum, sem á ríkissjóði hvíla, sjeu ¾ við útlönd, og aðallega við Danmörk.

Sje nú litið á þessar greiðslur, eins og nú standa sakir með hinn mikla gengismun á íslenskum og dönskum peningum, þá er það eigi alllítil upphæð, sem við þyrfti að bæta, til þess að geta svarað þessum greiðslum í dönskum krónum. Það þarf því enginn að vera hræddur, þó að tekjuafgangur verði á fjárlögunum, því í raun og veru er þarna hít, sem ekki fyllist strax.

Þá vil jeg þakka háttv. fjárveitinganefnd fyrir brtt., sem hún hefir gert við 11. gr., sem er í því fólgin að hækka þá upphæð, sem ætlað er, að þurfi til yfirskattanefnda, úr 5000 kr. upp í 20000 krónur. Því að sá kostnaður fer langt fram úr 5000 kr. og líklega fram úr 20000 líka. Því að það má ekki fara svo langt í að spara, að það beinlínis dragi úr störfum við skattaálögin sjálf.

Og í sjálfu sjer er þessi upphæð svo lítil að meira gæti tapast á að spara hana. En hinsvegar skal jeg lofa að viðhafa hina ítrustu sparsemi í þessu.