15.03.1922
Efri deild: 20. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 731 í B-deild Alþingistíðinda. (868)

57. mál, sveitarstjórnarlög

Jóhannes Jóhannesson:

Jeg vil leyfa mjer að benda á það, sem jeg sagði við fyrstu umræðu þessa máls um daginn, að jeg teldi ekki gott samræmi á milli niðurlags 1. og 3. málsgr. 1. gr. frumvarpsins. Það lítur ekki út fyrir, að háttv. nefnd hafi skilið, hvað jeg sagði þá. Jeg vil því taka dæmi:

Bóndi í Mosfellssveit hefir útibú í Kjósinni. Á hann þá eftir 1. málsgr. 1. gr. frv. að greiða fult útsvar í Mosfellssveitinni eftir öllum efnahag sínum, nema hann hafi haft fast aðsetur annarsstaðar, þá á hann líka að greiða þar útsvar. En ef hann hefir nú dvalið alt árið í Mosfellssveitinni, þó hann hafi haft útibú í Kjósinni, þá á að leggja fult útsvar á öll efni hans í Mosfellssveitinni og líka á útibúið í Kjósinni. En í 3. málsgrein 1. greinar segir, að hreppsnefndin í Kjósinni megi leggja fult útsvar á útibúið þar og að hreppsnefndin í Mosfellssveitinni hafi engan álögurjett á útibúið eða arðinn af því. Jeg sje því eigi annað en að þetta reki sig hjer hvað á annað, og vil jeg bera undir hæstv. atvinnumálaráðherra, hvort jeg fer ekki hjer með rjett mál.

Jeg lít líka svo á, að ekkert sje frekar til þess, að almenningur missi alla virðingu fyrir Alþingi en þessi sífelda óvandaða lagasmíði.

Þar sem nú þingið er búið að skora á stjórnina að endurskoða öll sveitarstjórnarlögin, finst mjer miklu rjettara að bíða þangað til það er búið heldur en á hverju þingi að vera að samþykkja varhugaverðar lagabreytingar. Mjer er því ómögulegt að greiða atkvæði með þessu frumvarpi, því jeg tel það alls ekki vansalaust fyrir Alþingi að láta það frá sjer fara sem lög.