10.04.1922
Neðri deild: 45. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 741 í B-deild Alþingistíðinda. (881)

57. mál, sveitarstjórnarlög

Jón Sigurðsson:

Við þm. Skagfirðinga eigum hjer brtt. á þskj. 225. Hún var til umræðu hjer í fyrra og sje jeg því ekki ástæðu til að fjölyrða um hana nú, einkum þar sem við háttv. þm. Borgf. (P. O.) höfum komið okkur saman um að forðast að hefja nú stórar deilur um þetta mál. Eru nú hjer í deildinni flestallir þeir sömu menn og í fyrra, og munu þeir hafa áttað sig á málinu þá, enda eru sömu rök með og móti sem áður. Jeg get þó ekki stilt mig um að geta þess við háttv. frsm. landbúnaðarnefndar (Þorl. J.), að mjer finst það dálítið hart, að hann skuli ekki unna þeim mönnum, sem landbúnað stunda, sömu rjettinda og þeim, er reka útgerð. Furðar mig stórlega á því, að hann, sveitamaðurinn, skuli líta svo á málið. Hann vill unna þeim, sem fara í önnur sveitarfjelög til fiskifanga, að vera útsvarsfríir, en ekki þeim, sem fara þangað eftir heyafla.

Ætla jeg svo ekki að segja meira um þetta mál að sinni, en vænti þess, að háttv. deild líti með sömu sanngirni á það og í fyrra. Þá var till. okkar samþykt með yfirgnæfandi meiri hluta, en komst þó ekki gegnum Ed., sökum þess, hve áliðið var orðið þings, þegar hún kom fram.

Jeg mun greiða báðum hinum brtt. atkv., því þær ganga báðar í sömu átt og brtt. okkar.