10.04.1922
Neðri deild: 45. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 745 í B-deild Alþingistíðinda. (884)

57. mál, sveitarstjórnarlög

Frsm. (Þorleifur Jónsson):

Jeg hefi ekki mörgu að svara að þessu sinni. Að vísu talaði háttv. þm. Barð. (H. K.) langt mál og virtist mjer helst, að hann vilja fella alt frv. og ekki leggja útsvar á aðra en innansveitarmenn. Hann sagði, að nefndin legði kapp á að ná í peninga frá öðrum. Veit jeg ekki vel, hvernig á að skilja það. En nefndin gat fallist á, að sanngjarnt væri að undanskilja þá útvegsmenn frá því að greiða útsvar, sem eiga heima í sama sýslufjelagi. En var á móti því, að svo og svo margar sýslur, sem liggja að stórum flóa, gætu notið góðs af því að hrúgast í eina verstöð. Bjóst jeg við, að háttv. þm. kæmi með einhver dæmi, sem sýndu, hve átakanlega útvegsmönnum væri íþyngt með þessari ráðstöfun, en jeg man ekki eftir, að hann gerði það.

Það er svo um Faxaflóa, að 3 sýslur liggja að honum, og eftir áður gildandi lögum hafa íbúarnir í einni sýslu við hann rjett til að reka atvinnu í annari, án þess að gjalda útsvar þar.

Mjer er kunnugt um, að það hefir risið upp deila um, hversu langt Faxaflói nái.

Miðneshreppur lagði útsvar á bát eða báta frá Akranesi í Borgarfjarðarsýslu, en þeir neituðu að borga útsvarið af því að Akranes væri við sama flóa og Miðneshreppur. — Miðneshreppur heldur því hinsvegar fram, að sá hreppur sje utan Faxaflóa, og að hann endi við Garðsskaga. Akurnesingar halda því fram, að Faxaflói nái út að Reykjanesi, en á milli þessara tveggja staða liggur Miðneshreppur. Út af þessum ágreiningi mun nú vera mál fyrir dómstólunum. Ákvæðið: „eða við sama fjörð eða flóa“ getur því altaf valdið ágreiningi, og þarf að hverfa úr lögunum sem ónothæf táknun.

Jeg man eigi til, að háttv. þm. Barð. (H. K.) færði fram nein rök fyrir því, að útvegsmenn á Vestfjörðum yrðu neitt hart úti fyrir þetta ákvæði, og jeg veit, að svo er ekki á Austfjörðum. Það er þá aðeins Faxaflói, sem um er að ræða. Jeg held svo, að jeg hafi ekki annað við ræðu háttv. þm. Barð. að athuga.

Háttv. 2. þm. Skagf. (J. S.) talaði á móti frv. og sagði, að nefndin vildi fara ver með landbúnaðinn en sjávarútveginn. Þetta er ekki rjett; nefndin vill ekki halla á rjett landbúnaðarins, heldur þvert á móti halda honum fram; en hann aftur á móti vill halla á landbúnaðinn, svo að komi kaupstöðunum til góða.

Þá sagði háttv. 2. þm. Reykv. (J. B.), að sjer þætti ófært að leggja útsvar á veiðimenn, sem kanske stunduðu laxveiði ekki meira en einn dag á árinu. Það gæti að vísu eftir frv. verið hægt, en jeg hygg ekki, að slíkt komi til greina, er um 1 dag væri að ræða eða því um líkt.

Viðvíkjandi laxveiðinni skal jeg með leyfi hæstv. forseta lesa upp kafla úr brjefi, sem háttv. Alþingi hefir borist frá hreppsnefnd Mosfellshrepps, og hljóðar svo:

„Laxveiði hefir víða verið arðsömustu hlunnindi jarða, stórum aukið gjaldþol og tekjur eigenda eða ábúenda, og því verið drjúgur tekjustofn sveitanna. En nú eru þessi hlunnindi víða fráskilin jörðunum, orðin sjereign efnamanna, er nota veiðina sjer til arðs og skemtunar. Svo er um arðsömustu laxveiðinotin hjer í Kjósarsýslu og víðar, og eru eigendur og notendur búsettir í öðrum sveitarfjelögum eða erlendis. Sumir eigendur selja veiðirjettinn á leigu, leigjandinn selur aftur veiðinotin á leigu (fyrir stöng í einn dag, t. d. Elliðaá) o. s. frv. — í Elliðaá hefir stöng á dag kostað 20 kr., en góðir veiðimenn hafa þó, jafnframt skemtuninni, rekið veiðina sem arðsama atvinnu, haft mikið meira upp úr henni, dæmi til 160–170 kr. á dag. En dómstólar vorir dæma öll slík laxveiðiafnot útsvarsfrjáls, og tapa sveitarsjóðirnir þannig einum besta tekjustofni sínum“.

Þetta segja þá kunnugir menn um málið og kvarta undan að það, sem áður var mikill tekjustofn fyrir hjeruðin, er nú orðið að engu. Sje jeg ekkert, sem geti mælt á móti, að lagt sje á laxveiðinotin, hvort heldur rekin eru sem atvinna eða til skemtunar, en aftur á móti er margt, sem mælir með því.

Þá hefi jeg ekki fleiru að svara, en leyfi mjer að beina til háttv. deildar, að hún samþykki frv.