10.04.1922
Neðri deild: 45. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 751 í B-deild Alþingistíðinda. (888)

57. mál, sveitarstjórnarlög

Pjetur Ottesen:

Jeg ætla aðeins að segja nokkur orð út af hinum hógværu andmælum frá háttv. 1. og 2. þm. Reykv.

Háttv. 1. þm. Reykvíkinga sagði, að brtt. 225 færi ef til vill í þá átt að bæta úr því vandræðaástandi, sem nú á sjer stað.

Háttv. þm. (Jak. M.) var að tala um að leggja mætti hátt útsvar á þessa menn, sem slægjurnar lána, en reynslan er nú sú, að þeir hafa lítið gjaldþol; því það þverr jafnóðum og jarðirnar rýma og ganga úr sjer. Og heyið er ekki hægt að taka lögtaki. Það er alt á burt á haustin áður en lagt er á, sem ekki er fyr en í október. Og gagnvart því, að slægjur sjeu sprengdar upp og leigðar okurverði, sem í fæstum tilfellum mun vera reyndin á, má benda á það, að sumstaðar eru gamlir samningar um leiguna, og þar er hún lág, því það er altítt, að menn taki ákveðin slægjulönd á leigu til margra ára.

Háttv. 2. þm. Reykvíkinga (J. B.) benti á, að sumstaðar hagaði svo til, að stór slægjulönd væru ónotuð. Það getur ef til vill til sanns vegar færst, að svo hafi þetta verið nú síðustu árin, síðan bústofn manna gekk svo mjög saman sem kunnugt er, og hafa bændur því ekki getað notað lönd sín sjálfir til fulls. En hitt er áreiðanlegt, að það er stórvægileg hætta fyrir ræktun í landinu, ef bændur hætta að nota sjálfir lönd sín. Þá er hættan og eyðileggingin vís.

Loks vil jeg geta þess, að það er bersýnilega andi sveitarstjórnarlaganna, að útsvar sje greitt þar, sem atvinnan er stunduð. Og þó segja megi, að ákvæðið um, að útgerð sje ekki útsvarsskyld við sama fjörð og flóa, þó í öðrum hreppi sje, sje undantekning frá þessari meginreglu, þá horfir þar alt öðruvísi við er með slægjuafnotin, því við það að flytja heyið út úr hreppnum eru í burtu flutt verðmæti og þar með skertir framfærslu- og bjargræðismöguleikar hreppsfjelagsins sem því nemur, en í hinu tilfellinu er aðeins um að ræða að leggja á land um stundarsakir fisk, sem veiddur er í hinum stóra almenningi sjónum.