22.03.1922
Neðri deild: 29. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í B-deild Alþingistíðinda. (89)

1. mál, fjárlög 1923

Þórarinn Jónsson:

Það er meira af vilja en mætti að jeg stend upp, því jeg er illa fyrir það kallaður að fara að halda hjer ræðu. En þó þykir það hlýða, að jeg fylgi brtt. á þskj. 122 úr hlaði og geri nokkra grein fyrir henni. Sumum mun þykja það nokkuð óviðeigandi að bera fram slíka till. sem þessa, einkum þeim, sem fegra fjárhaginn í augum sjer og eiga erfitt með að viðurkenna sannleikann.

Jeg verð að segja það, að jeg lít ekki eins glæsilega á fjárhaginn og háttv. frsm. (B.J.). Það mun þó engum dyljast, að margt bendir til þess í fjárlagafrv., að ekki sje alt í sem bestu lagi, þar sem tillögurnar þar ganga út á það að leggja skatt á svo að segja alla framleiðslu þjóðarinnar og að leggja niður mest af framkvæmdum hennar. Þessi tvö atriði virðast benda á alt annað en glæsilegan fjárhag. Háttv. frsm. sagði, að hjer væri enginn voði á ferðum, nema ef sá væri, að hægt væri að borga allmikið af skuldum á þessu ári. Reyndist þetta rjett, væri nú ekki svo mikið að hræðast, en það læddist fram hjá háttv. frsm., að skattar mundu ekki borgast, næðust ekki inn og væru yfir höfuð ekki til neins. En mjer er spurn: Mun það ekki stafa af erfiðum fjárhag? Afurðir landsins eru lágar, framleiðslan borgar sig ekki, svo það er augljóst örþrifaráð að leggja skatt á hana. Menn vilja segja að þessi yfirstandandi tími gefi góðar vonir, en við vitum ekkert hverju fram vindur, ekkert um gildi krónunnar eða aðrar ástæður árið 1923. (B.J.: Kannske að sólin verði kólnuð). Okkur hefir dottið í hug, að takmarka mætti útgjöldin á öðrum sviðum en þeim, sem að framkvæmdum lúta, því öllum er okkur það ljóst, hvað þröngt er fyrir dyrum. Embættismenn taka nú mestan hluta af öllum tekjum landsins, en lögákveðnum gjöldum er ekki svo hægt að breyta.

Brtt. okkar á þskj. 122 er tilraun í þá átt að lækka útgjöldin. Þó búast megi við, að henni verði illa tekið, eftir öðrum undirtektum þessarar háttv. deildar í sparnaðaráttina, þá höfum við borið hana fram í því trausti, að hún yrði samþ. Hún fer fram á það að lækka laun sendiherrans. Hún er ekki sprottin af því, að okkur líki illa við þann mann, sem nú gegnir þessu starfi. Um hann höfum við ekkert annað en gott að segja og álítum hann með hæfustu Íslendingum í þetta embætti. En við höfum allir heyrt háværar raddir um það, að embættið væri óþarft. Sendiherrann hefir verið nefndur tildursherra, legáti og öðrum hræðilegum nöfnum, og mun það ekki gert til heiðurs embættinu. Með þessari till. leggjum við engan dóm á það, hvort embættið er óþarft eða ekki; þar skortir okkur nægilega þekkingu. En þó virðist mega taka tillit til álits ýmsra merkra manna um þetta efni.

Í nýútkominni grein í „Iðunni“ eftir hæstv. atvinnumálaráðherra kallar hann sendiherrann alóþarfan tildursherra. Þetta gefur mjer óneitanlega tilefni til að halda, að embættið sje ekki alveg bráðnauðsynlegt. Þessi maður, hæstv. atvinnumálaráðherra, er flestum kunnugri í þessu efni, hefir meira til brunns að bera en svo, að ekki mætti taka fullkomið tillit til álits hans. En hvað sem því viðvíkur, þá er launaupphæðin, sem hjer er um að ræða, athugaverð. Það er sjálfstætt atriði. Þegar embættið var stofnað, þá voru launakjörin eins og við förum nú fram á að þau verði áfram; þá voru þau talin hæfileg að sagt var, og ákveðin á sama tíma og mörg önnur laun, sem ekki hafa þótt of lág, og Sveinn Björnsson tók fúslega við embættinu með þessum launum. Það verður ekki sagt, að dýrtíðin hafi vaxið síðan, eða að það sje á nokkurn hátt dýrara að þjóna embættinu nú, og því dálítið sjerstakt, að svo bráðnauðsynlegt skuli þykja að auka við launin sem raun ber vitni um. Ástæðurnar munu vera þær, að hjer þurfi að tolla í tískunni, auðvitað þeirri, sem sjálfsögð þykir, að þessir menn þurfi að brúka fje í óhófi. En ef við lítum á það, hvernig þjóð vor metur þá menn, sem sóa mestu fje, þá sjáum við það, að hún álítur það engan sóma. Sóuninni fylgja gjaldþrot; hjá því verður ekki komist. Og það sýnist undarlegt, ef þjóðirnar líta svo á, að það sje sómi fyrir smáþjóð að kunna ekki að sníða sjer stakk eftir vexti: jeg verð að álíta hið gagnstæða. Og svo mikið er víst, að stórþjóðirnar hafa nú sett nefndir á laggirnar, sem eiga á öllum sviðum að draga úr útgjöldunum til sparnaðar. Hafi það verið rjett, að launin væru sæmileg þegar embættið var stofnað, þá sje jeg enga ástæðu til að ætla, að þau sjeu það ekki eins nú. Það er sagt, að sendiherrann hafi eytt fje úr sínum eigin vasa til reksturs embættisins, en fyrir því hygg jeg of litlar heimildir, til þess að hægt sje að taka það trúanlegt. En vegna þessa hefir þó stjórnin viljað hækka laun hans og annan kostnað við embættið um 12 þús. krónur á ári, og sendiherrann sjálfur álítur það engan veginn nóg. Sje það álitin afleiðing af okkar till., að embættið verði að leggjast niður, þá verður sama máli að gegna með till. stjórnarinnar. Sendiherranum segist sjálfum svo frá í brjefi til stjórnarinnar:

„Það, sem mjer var þá ljóst, hefir reynslan síðan staðfest enn betur, þ. e., að 20–25 þús. kr. að minsta kosti vanti á, að hægt sje að komast af með laun þau, sem sendiherranum eru ætluð“.

Og á öðrum stað segir hann:

„Þau laun tel jeg þurfa að vera eins og nú eru ástæður, allra lægst 36 þús. krónur“.

Eftir þessum orðum að dæma skil jeg ekki, að okkar till., frekar en stjórnartill., verði þess valdandi að embættið þurfi að leggjast niður.

Við komum með þessa brtt. til þess að það sannist, ef rjett er, hvað óendanlega launin hafa verið lítil í fyrstu og hvort það hafi verið meiningin strax í upphafi að fá þau hækkuð.

Háttv. frsm. (B.J.) gat um ýmislegt, sem sýndi það, að hans dómi, hvað embættið væri nauðsynlegt. Hann mintist á það, að ullar- og kjötpundið þyrfti ekki að hækka mikið í verði til þess, að sendiherrann borgaði sig; en vel að merkja, við erum í basli með söluna á afurðum okkar og sendiherrann hefir ekkert gert, mjer vitanlega, til að bæta úr því. Þegar eitthvað er gert til að greiða fyrir sölu á afurðum okkar, þá eru blátt áfram fengnir aðrir og sendir til þess. En jeg vil ekki segja, að sendiherrann eigi nokkra sök á þessu. Háttv. frsm. sagði, að vel hefði okkur reynst að hafa sendiherrann til að taka fyrir okkur enska lánið. En jeg vil spyrja: Þurfti ekki frekari hjálp til þess og alldýra? Auk þess hefi jeg hlerað það, og munu vera allmiklar sönnur á, að ríflegan „ferðakostnað“ muni sendiherrann hafa fengið, þegar hann hefir skotist eitthvað fyrir stjórnina.

Eins og jeg hefi tekið fram viljum við flm. engan dóm leggja á það, hvort sendiherraembættið er óþarft, en við getum ekki álitið það eðlilegt að fara að stórhækka laun þessa manns — laun, sem í upphafi voru viðurkend nægilega há.

Svo vil jeg aðeins drepa á nokkur fleiri atriði. Fyrst símana. Hæstv. atvinnumálaráðherra (Kl.J.) hefir tekið margt fram, sem jeg vildi sagt hafa. Þó að nefndin hafi lagt það til að fella niður símana, þá er það meðal annars sprottið af því, að hún vill, að fjárlagafrv. verði með sem minstum tekjuhalla eða tekjuhallalaust. Við álítum nýjar símalínur ekki svo bráðnauðsynlegar, að ekki sje hægt að bíða með þær eitt ár. Auk þess er alt, sem til þeirra þarf, mjög dýrt sem stendur. Staurar helmingi dýrari en áður. Alt fje, sem til efniskaupa gengur, fer út úr landinu og óvíst, að línurnar gefi eins miklar tekjur og búist er við, eftir því sem reynsla er nú fengin fyrir. Enn er það, að ef þessar símalínur standa í fjárlögunum og hæstv. stjórn getur ekki látið framkvæma lagningu þeirra nema að litlu leyti, þá er altaf togast á um það, hvaða línur verði lagðar, og rís þar út af ýmislegt stríð og óánægja.

Hvað vegina snertir, þá vill háttv. frsm. einnig fella niður alla nýbyggingu á þeim, ef símarnir eru feldir niður. En hjer er nokkru öðru máli að gegna. Það er sumstaðar óumflýjanlegt að bæta við eða lengja nýju vegina að einhverju litlu leyti, til að þeir geti þegar orðið nothæfir. Og þó að jeg fyrir mitt leyti vildi offra öllum nýbyggingum vega í mínu kjördæmi, þá vil jeg þó láta hæstv. stjórn ráða þar um, eftir tillögum vegamálastjóra, hvað bráðnauðsynlegt er að gera, eftir því sem fjárhagurinn leyfir.

Hitt er öllum vitanlegt að það er altaf óumflýjanlegt að verja miklu fje til vegabóta. Einhver hreyfði því, að ef styrkur til vegabóta yrði lagður niður, myndi mikill atvinnuskortur af því hljótast. Slíkt er að mínu viti hin mesta fjarstæða, því að svo mikið mun vera að gera til sveita, að þar gæti ekki orðið um atvinnuleysi að ræða af þeim orsökum.

Jeg skal ennfremur leyfa mjer að minnast hjer á eitt atriði, er háttv. frsm. drap á, sem sje till. um niðurfærslu á launum hinnar dansk-íslensku ráðgjafarnefndar eða sambandslaganefndar. Tók háttv. frsm. það fram, að hann væri mótfallinn till. um niðurfærslu á launum nefndarinnar. — Því hefir verið haldið fram, að stjórnin hafi samið við nefndina um launahæðina. En hafi stjórnin gert það, þá er það eigi rjett, því það er greinilega tekið fram í tilsk. nr. 10, 28. maí 1919, 8. gr., að hið ísl. fjárveitingarvald skuli ákveða launahæð sinna nefndarmanna. Annað mál er það að það getur verið efamál, hvort þingið hefir eigi með þögninni gengið inn á þá samninga. En slíkt er lögfræðinganna að skýra, en ekki mitt. En hitt virðist mjer að launin sjeu of há, því það er vitanlegt að þegar fundir eru haldnir í Reykjavík þá er kostnaðurinn við starfið hverfandi lítill. Sjeu fundir aftur á móti haldnir í Danmörku, álít jeg sjálfsagt að greiða nefndarmönnum nægilegt ferðafje og ætti það að vera nægilegt með þeim launum sem fjárveitinganefnd nú ákveður, þegar þess er gætt að þeir, sem í sambandslaganefndinni sitja, eru allir launaðir embættismenn. Hinsvegar skal jeg endurtaka það, að sjeu í nokkru brotin lög á mönnum þessum, þá skera dómstólarnir þar úr.