10.04.1922
Neðri deild: 45. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 752 í B-deild Alþingistíðinda. (890)

57. mál, sveitarstjórnarlög

Jón Sigurðsson:

Jeg vil leyfa mjer að spyrja hv. þm. Borgf. (P. O.), hvort hann hafi gleymt grasleysissumrinu 1918, þegar heilar og hálfar sveitir urðu að leita í aðra hreppa til þess að fá slægjur, og það þótt ekki væri annað en fjallaflóar með broki. En nú, er því er bætt ofan á óþægindin og kostnaðinn, sem verður af slíku, að þeim, sem eru að braska við að bjarga sjer á þennan hátt, er gert að skyldu að greiða útsvar á tveimur stöðum, þá finst mjer að metaskálar rjettlætisins sjeu farnar að hallast. Sem betur fór kom þetta ekki til 1918, því að þá var þetta ekki komið í lög, en hefðu þá verið komin þau lög, sem nú gilda, þá hefði þetta eflaust komið þungt niður á fjölda manna, sem örðugast áttu uppdráttar. Og þetta ranglæti kemur venjulega niður á þeim, sem síst skyldi. Það kemur niður á þeim, sem byggja harðbalakot og slægjurýr, og svo kaupstaða eða kauptúnabúum, sem eru að reyna að hafa einhverjar skepnur til þess að geta veitt börnum sínum hollara fæði en ella.