24.03.1922
Neðri deild: 31. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 762 í B-deild Alþingistíðinda. (904)

68. mál, fræðsla barna

Pjetur Ottesen:

Jeg vil ekki tefja tímann með því að vekja deilur um þetta mál. Jeg get þó ekki stilt mig um að gera örfáar athugasemdir.

Jeg man, að þegar frv. það, sem fjvn. flutti hjer á dögunum, var til umr., þá var það notað sem ástæða á móti frv., að fyrir þinginu lægi tillögur um breytingar á fræðslulögunum, sem sje frv. það, sem milliþinganefndin í skólamálum hafði samið og stjórnin borið fram. Þótti það ekki vel við eiga að grípa svo fram fyrir hendur mentamálanefndar, sem þessu frv. stjórnarinnar var vísað til, og látið var í veðri vaka, að nefndin mundi afgreiða. En með því að mentamálanefndin sjálf hefir nú komið fram með frv., sem háttv. frsm. (Þorst. J.) segir, að sje aðeins til bráðabirgða, þá lítur ekki út fyrir, að hugur hafi fylgt máli, eða að minsta kosti virðist hún ekki skoða það sem neina fjarstæðu nú að hreyfa við lögunum, án þess að slá neinu föstu um frambúðarskipulag.

Svo voru það nokkrar fyrirspurnir til nefndarinnar. Háttv. frsm. (Þorst. J.) tók það rjettilega fram, að með frv. þessu væri slakað á kröfum þeim um skólaskyldu barna, sem gerðar voru 1907, og bindi þau ekki við eins langan skólatíma og í fræðslulögunum er ákveðið. Nú langar mig til að spyrja háttv. nefnd, hvort hún ætlist til þess, að heimavistarskólar þeir, sem talað er um í 1. gr. frv., fái styrk úr ríkissjóði, þannig, að úr ríkissjóði sje greiddur hinn ákveðni hluti af launum kennarans eða kennaranna, samkvæmt lögum um laun barnakennara frá 1919.

Sje það meiningin, þá vil jeg benda hinni háttv. nefnd á það, að nauðsynlegt verður sennilega að gera breytingar á tjeðum lögum frá 1919, þar sem ákvæðin um laun kennaranna eru miðuð við, að hvert barn njóti 24 vikna kenslu við alla fastaskóla. Vildi jeg aðeins skjóta þessu til háttv. nefndar, að þar sem í þessu frv. er ekki beinlínis gert að skyldu, að hvert barn njóti meira en 12 vikna kenslu, þá verður að breyta ákvæði þeirra eldri laga, ef ekki á að útiloka þennan styrk úr ríkissjóði. Það er heldur hvergi talað um það í þessu frv. háttv. mentmn., að ákvæði þau í lögunum frá 1919, sem brjóta í bág við það, skuli falla úr gildi, en það er þó æfinlega venja að taka það fram, þegar gömul lög eru látin þoka fyrir nýjum lögum.