24.03.1922
Neðri deild: 31. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 765 í B-deild Alþingistíðinda. (907)

68. mál, fræðsla barna

Jón Þorláksson:

Það hefir komið fram, að mentamn. hafi ekki látið í ljós afstöðu sína gagnvart stjórnarfrv., og vildi jeg skýra það atriði nánar en gert hefir verið. Í þessu frv., sem hjer er á ferðinni, felast allar þær breytingar frá núverandi fræðslulögum, sem eru í stjórnarfrv. og nefndinni þótti nokkru máli skifta og meiri hlutinn gat aðhylst. En auk þessa eru nokkrar mikilsverðar breytingar á núverandi fræðslulögum þó gerðar í stjórnarfrv., sem nefndin gat ekki fallist á. Eru þar á meðal breytingar á skólanefndum, skólahjeruðum og ýmsar fleiri. Þykir mjer rjett að taka þetta fram nú, svo að ekki geti það orkað tvímælis síðar, hver afstaða nefndarinnar til stjórnarfrv. hafi verið.

Jeg vil þá líka leggja áherslu á það, að hjer er ekki svo mjög um bráðabirgðafyrirkomulag að ræða, heldur býst jeg við, að lögin með þessum breytingum geti enst um skeið. Enda höfum vjer komið hjer einungis fram með þær till., sem vjer teljum rjett að lögleiða.

Viðvíkjandi aths. háttv. þm. Borgf. (P. O.), um laun barnakennara við þessa skóla, þá skal jeg geta þess, að nefndin hefir ennþá ekki tekið það til ítarlegrar athugunar, en mun gera það til næstu umr.