22.03.1922
Neðri deild: 29. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í B-deild Alþingistíðinda. (91)

1. mál, fjárlög 1923

Gunnar Sigurðsson:

Aðeins örfá orð út af brtt. minni hlutans við 13. gr.

Jeg lít svo á að síst af öllu megi spara verklegu framkvæmdirnar. Háttv. 2. þm. Húnv. (Þór.J.) var mjer sammála um það í fyrra er rætt var um bryggjubyggingu á Blönduósi. Hann hjelt því fram í ræðu sinni að framleiðslan borgaði sig ekki. Jeg verð að telja það mjög hæpna fullyrðingu því bæði er það að nú eru horfurnar mjög sæmilegar og ólíkar því sem þær voru í fyrra og auk þess hefir síldin gefið töluverðan gróða í aðra hönd árið sem leið. Annars er það álit mitt, að verklegu framkvæmdirnar eigi að vera og geti líka orðið liður í aukinni framleiðslu. Hvað viðvíkur vegagerð og símalagningu, þá skal jeg geta þess að jeg tel mjög mikinn mun á því, hvort þeirra er lagt niður, og jeg hika ekki við að telja sjálfsagt að leggja heldur niður símalagningar, en ekki vanrækja þjóðvegina. Annars mun alveg óhætt að fela stjórninni að annast framkvæmd á þessu því hæstv. atvrh. er þektur sparnaðarmaður er ekki mun leggja út í meiri framkvæmdir en hann telur að klofið verði fjárhagsins vegna.

Jeg hefi oft minst hjer á þinginu á Holtaveginn, og má vera að sumum hafi stundum virst jeg nokkuð hvassyrtur út af byggingu og viðhaldi þess vegar. Sannleikurinn er sá að vegurinn er frá öndverðu sjerstaklega illa bygður og hefir ávalt verið vanræktur að viðhaldi. Nú hefir vegamálastjóri tekið málið í sínar hendur, og það gleður mig, að hann skuli þannig hafa tekið af mjer ómakið. Sýslan hefir hingað til bókstaflega ætlað að sligast af þeim kostnaði sem hún hefir haft af veginum, og nú sjer vegamálastjóri, að póstleiðin austur muni stöðvast ef ekkert er aðgert. Slík stöðvun póstleiðarinnar mundi auðvitað hafa í för með sjer megnustu vandræði fyrir sýslubúa og alt landið, draga úr allri framleiðslu og framkvæmdum austur þar, og sjá allir hve heppilegur slíkur sparnaður væri, að strika þær upphæðir út af fjárlögunum, er ætlaðar væru til viðhalds jafnfjölförnum þjóðvegi.