04.04.1922
Neðri deild: 40. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 773 í B-deild Alþingistíðinda. (916)

68. mál, fræðsla barna

Pjetur Ottesen:

Hv. frsm. (Þorst. J.) vildi ekki kannast við stefnubreytinguna hjá sjer. Það getur nú verið, að hann hafi altaf verið á þessari skoðun, er hann hugsaði málið rólega, en um daginn, er frv. fjvn. var til umræðu í háttv. deild, var á honum svo mikill vígamóður, að hann hefir þá ef til vill gengið feti framar í orðum en skoðun hans leyfði. (Þorst. J.: Jeg held, að jeg hafi hugsað þetta mál alveg eins mikið og háttv. þm. Borgf.). Já, það getur núi verið, að háttv. frsm. hafi vit á málinu og mikið um það hugsað, en hann hugsar ef til vill sem svo, að þar sem hann sje kennari, sje hann færari í þessum efnum en allir háttv. deildarmenn aðrir og geti því öðrum betur gefið ráð og bendingar um þessi mál. Hann verður nú vitanlega að sætta sig við dóma manna um þetta, hvernig sem þeir falla.

Jeg held nú enn, að háttv. mentmn. hafi ekki verið búin að semja þetta frv. sitt þegar frv. fjvn. var fyrst til umr. í háttv. deild. Hygg jeg því, að fullyrða megi, að það hafi átt mikinn þátt í því, að þetta frv. mentmn. er nú fram komið þann veg sem það er.

Annars var fátt, sem háttv. frsm. (Þorst. J.) færði móti athugasemdum mínum, enda get jeg geymt það til 3. umr. að svara því, því að þá hefi jeg hugsað mjer að koma með brtt. við frv., eins og jeg gat um áðan.

Hann mintist á, að umkvartanir hefðu komið frá ýmsum fræðsluhjeruðum um, að fræðslan væri ekki góð, og kendi því um, að námstíminn væri of stuttur. Að svo miklu leyti, sem marka má þessar umsagnir, má eins ætla, að þetta stafi af því, að kenslan sje ekki eins góð og skyldi í þann stutta tíma, sem skólinn stendur, og svo hinu, að mjög skortir á um samstarf milli heimilanna og skólanna. Það er engin sönnun fyrir því, að í þessum fræðsluhjeruðum mundi það drýgra eða heillavænlegra að lengja námstímann.

Háttv. frsm. (Þorst. J.) tók það fram, að hann væri sammála mjer um það, að fækka ætti kennurum og öðrum starfsmönnum ríkisins eins og hægt væri. Sje þetta virkilega meining hans, ætti hann þá líka að geta verið sammála um það að nota sem best þá kenslukrafta, sem prestarnir geta látið í tje, með því að halda ákvæði um að þeir inni af hendi þá fræðsluskyldu, sem þeim ber eftir eldri lagaákvæðum.